Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Árið 2009 verður tími áskorunar
Miðvikudagur 31. desember 2008 kl. 11:44

Árið 2009 verður tími áskorunar



Sr. Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur í Keflavík:

Árið 2008 lofaði afskaplega góðu. Síðustu árin hafði hvert metið verið slegið á fætur öðru í hagkerfinu og líklega hefur sjálfstraust þjóðarinnar aldrei verið meira en þau áramótin.

Nú þegar árið er að baki blasir auðvitað annar veruleiki við og tilfinningarnar eru gerólíkar. Menn fara háðuglegum orðum um verkefnin og viðfangsefnin sem áður höfðu fyllt okkur svo mikilli ánægju. En ljósið skín í myrkrinu. Á síðustu vikum höfum við Suðurnesjamenn fengið nýtt og betra tilefni til þess að fyllast stolti og sjálfstrausti. Á þessum erfiðu tímum hefur fólk staðið saman með einstökum hætti. Gjafir streyma inn til Velferðarsjóðsins sem hefur á skömmum tíma vaxið upp í fimm milljónir. Það er nánast allt framlag frá einstaklingum og félagasamtökum. Þegar aðstæður taka að batna á ný getum við sannarlega rifjað upp tímana núna þegar menn stóðu saman og studdu hverjir aðra hér á þessu svæði.

Árið 2009 verður tími áskorunar fyrir okkur öll. Á því ári reynir sannarlega á samfélagið og þá sem fara með ráð þess. Mikilvægt er að við hugum að þeim gildum sem standa fyrir sínu óháð hagsveiflum og gengishruni: Kærleikurinn til nánungans, heiðarleikinn, virðingin fyrir umhverfi okkar og trúin sem flytur fjöll - allt eru þetta eilíf og óbreytanleg verðmæti sem við ættum reyndar alltaf að hafa í huga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024