Árangur grunnskólanna og vígsla Minningarlundar
Margrét Sanders gerir upp árið 2014.
Njarðvíkingurinn Margrét Sanders er framkvæmdastjóri hjá Deloitte og formaður Samtaka verslunar og þjónustu. Víkurfréttir fengu Margréti til þess að svara nokkrum áramótaspurningum.
Hvað stóð upp úr í fréttum ársins 2014 á Suðurnesjum?
Sú atvinnuuppbygging sem varð á Suðurnesjum þó ég hefði viljað sjá meira gerast. Gagnaverin, kraftmikil fyrirtæki á Reykjanesi, Algalíf á Ásbrú, samningur um Kísilver svo eitthvað sé nefnt.
Hvaða Suðurnesjamaður var mest áberandi að þínu mati þetta árið?
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, auk þess þingmennirnir Oddný Harðardóttir, Ásmundur Friðriksson og Silja Gunnarsdóttir. Eins var Ingvar Jónsson Njarðvíkingur og markmaður Stjörnunnar í knattspyrnu áberandi og var síðan kosinn besti leikmaður Íslandsmótsins. Tónlistarmennirnir okkar eru líka ansi áberandi enda frábærir.
Hvað var það jákvæðasta sem gerðist á árinu?
Árangur grunnskólanna í Reykjanesbæ er algerlega frábær og er tekið eftir því um allt land. Ótrúlega góður árangur karlalandsliðsins í knattspyrnu. Ég verð auðvitað að nefna sem formaður Samtaka verslunar og þjónustu niðurfellingu almennra vörugjalda sem hefur verið baráttumál verslunarinnar í mörg ár og skiptir heimilin í landinu miklu máli.
En það neikvæðasta?
Ótrúlega rætin kosningabarátta í Reykjanesbæ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar, þar á ég við alla flokka. Svona persónuárásir hugnast mér ekki, mikið að góðu fólki að bjóða sig fram til þess að vinna að hag bæjarfélagsins og á betra skilið.
Hvað stóð upp úr persónulega hjá þér á þessu ári?
Útskrift dótturinnar og flutningur hennar til Spánar í framhaldsnám. Auk þess er vígsla minningarlundar Reykjanesbæjar ofarlega í huganum. Það er mikilvægt fyrir þá sem hafa misst nákomna að þeir gleymist ekki og minningarlundurinn er þess vegna mikilvægur fyrir okkur. Mikið þakklæti til þeirra sem stóðu að þessu og komu því í framkvæmd. Einnig tók ég við sem formaður Samtaka verslunar og þjónustu á árinu.
Ætlar þú að strengja áramótaheit?
Nei en ég hef strengt þess heit í lífinu að vera jákvæð og bjartsýn. Þarf að minna mig á það á hverjum degi, ekki bara um áramót.
Hvað breytingar viltu sjá á Suðurnesjum á nýju ári?
Ég vil sjá okkur Suðurnesjamenn tala svæðið okkar upp, enda eru tækifærin hér.