Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Appelsínur og epli
Laugardagur 24. desember 2016 kl. 06:00

Appelsínur og epli

-voru góðgætið í þá daga

Þórður Karlsson, gæða- og öryggisstjóri hjá Íslenskum aðalverktökum, er fæddur og uppalinn í Reykjanesbæ og er giftur Sigurlínu Högnadóttur. Þórður keyrir alltaf út síðustu jólakortin sem „gleymdist“ að senda, á aðfangadegi. Eitt sinn fengu þau hjónin pakka með snuði í jólagjöf, en það gaf til kynna að þau væru að verða afi og amma.

Jólabíómyndin sem kemur þér í skapið? 
Það myndi vera Christmas Vacation. Drepfyndin, sérstaklega á þessum tíma árs.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sendir þú jólakort eða hefur Facebook tekið yfir?
Við sendum ennþá eitthvað af jólakortum, það er bara hluti af stemningunni að fá fallegar jólakveðjur á pappír frá ættingjum og vinum.. En við setjum jólakveðju á Facebook líka.

Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf um hátíðarnar? 
Já, eru það ekki allir, það má til dæmis byrja á undirbúningnum, skatan á Þorláksmessu, undirbúa jólamatinn, skreyta jólatréð og alltaf minnist ég þess að þurfa að keyra út einhverjum jólakortum á aðfangadag, sem „gleymdist“ að senda. Síðan er kveikt á kertum á leiðum hjá látnum ættingjum. Maturinn er alltaf á sama tíma og pakkarnir opnaðir þegar búið er að ganga frá eftir matinn.

Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Ætli það sé ekki pakkinn með snuðinu, um jólin 2002 sem gaf til kynna að við værum að verða afi og amma. Fyrsta barnabarnið fæddist svo í júlí 2003.

Er eitthvað eftirminnilegt í huga þér frá yngri árum þínum á jólum?
Já, mér er minnisstætt að hafa fengið sama jólamat og við eldum um hver jól. Í minningunni var alltaf snjór og lítið um jólaseríur í gluggum nema þá helst hjá bandarískum fjölskyldum sem bjuggu í bænum. Í þá daga var jólagóðgætið appelsínur og epli, síðan var kannski laumað til okkar konfektmola á aðfangadagskvöldi. Það flæddi ekki sælgæti úr öllum skálum í þá daga.

Hvað er í matinn á aðfangadag? 
Við erum alltaf með beinlausa fugla í matinn á aðfangadag. Það hefur verið þannig alveg frá því ég man eftir mér og eitthvað aftur í ættir. Þetta er þó ekki fuglakjöt enda útbúið úr lambalærisneiðum sem eru úrbeinaðar, barðar, kryddaðar og fylltar með kjötfarsi og beikon sneiðum. Þetta er síðan vafið og bakað í ofni. Það bíða allir spenntir eftir þessum eðal mat.  

Hvenær eru jólin komin fyrir þér?
Þegar allar verslanir hafa lokað á aðfangadag. Þá fyrst færist ró yfir.. nei í alvöru þá finnst mér þetta vera komið þegar búið er að skreyta jólatréð á Þorláksmessukvöldi. Þá skreytum við saman, hlustum á jólatónlist og jólakveðjur í útvarpi.

Hefur þú verið eða gætir þú hugsað þér að vera erlendis um jólin? 
Við höfum tvívegis verið erlendis um jól og það var mjög gaman. Í dag er það þannig að helst vill maður hafa alla fjölskylduna með og krefst það mikillar skipulagningar ef allir eiga að komast. Nú seinni árin höfum við haldið okkur heima en hver veit hvað verður, það er alltaf gaman að breyta til.

Áttu þér uppáhalds jólaskraut? 
Ekki get ég sagt það. Mér finnst yfirleitt allt jólaskraut fallegt og gott í hófi. Ég var duglegri að skreyta hér áður fyrr en nú vil ég hafa þetta einfalt og fljótlegt.

Hvernig verð þú jóladegi? 
Það er slökun fram eftir degi, lesið eða horft á sjónvarp og nartað í afganga frá aðfangadegi. Seinni partinn er síðan haldið í Kópavoginn, í heimsókn til tengdó, þar sem hangikjöt er á boðstólum. Þá er fjör, tekið í spil og haft ofan af fyrir þeim yngstu.

Óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.