Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Appelsínugular vegan-sápur og snúðar í átaki Soroptimistakvenna
Soroptimistakonur á fullu í sápugerð. VF-myndir/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 10. október 2020 kl. 07:03

Appelsínugular vegan-sápur og snúðar í átaki Soroptimistakvenna

Appelsínugular vegan sápur og snúðar með appelsínugulu kremi standa Suðurnesjamönnum til boða í árlegu átaki Soroptimistaklúbbs Keflavíkur frá 25. nóvember. Átakið er alþjóðlegt og heitir „Roðagyllum heiminn“. Konurnar í klúbbnum hófu undirbúning í vikunni þegar þær fóru í sápugerð undir handleiðslu Ólafs Árna Halldórssonar í Sápunni en hann leggur fram vinnu sína, uppskriftir, tæki og tól til framleiðslu á sápunum.

Í fyrra tók Soroptimistaklúbbur Keflavíkur í fyrsta sinn þátt í roðagyllingu heimsins, sem er alþjóðlegt átaka gegn kynbundnu ofbeldi og mörg mannúðarsamtök um allan heim taka þátt í. Átakið hefst 25. nóvember á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi, staðfestur í mannréttindayfirlýsingunni. Átakið nær hámarki sínu mánudaginn 10. desember, á alþjóða mannréttindadaginn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Appelsínugulur er litur átaksins

„Í fyrra fengum við fyrirtæki og stofanir í lið með okkur en forsvarsmenn margra þeirra tóku vel í beiðni okkar um að lýsa byggingar, húsnæði eða umhverfi upp með appelsínugulum lit, sem er litur átaksins. Liturinn táknar bjartari framtíð, lausa við ofbeldi gegn konum og börnum,“ segir Svanhildur Eiríksdóttir, formaður soroptimistaklúbbsins.

Stofnanir og fyrirtæki í appelsínugulu

„Í ár munum við aftur biðja fyrirtæki og stofnanir að lýsa upp og fáum vonandi enn fleiri til að taka þátt núna. Þá hefur Sigurjón Héðinsson bakari tekið jákvætt í beiðni klúbbsins að selja snúða með appelsínugulu kremi þessa sextán daga meðan átakið stendur yfir og láta ágóðann af sölunni renna til Velferðarsjóðs Suðurnesja. Það er mikilvægara sem aldrei fyrr að auka innstreymi í hjálparsjóði, þar sem streymið hefur verið að minnka vegna samdráttar allsstaðar í þjóðfélaginu. Við ætlum að kalla snúðana Mannúðarsnúða.“

Karlarnir hjálpa konunum

Fjáröflun klúbbsins verður sala á appelsínugulri vegan-sápu sem Ólafur Árni Haraldsson í Sápunni aðstoðar Soroptimistakonur með að gera svo þær geti selt hana til Suðurnesjamanna. „Þetta er alveg frábært. Pabbi einnar systur í klúbbnum útvegar okkur húsnæði svo það er óhætt að segja að karlar styðji sérstaklega vel við átakið, sem okkur finnst skemmtilegt. Sápuna munum við selja á vettvangi Soroptimista en sjáum við aðrar smugur munum við að sjálfsögðu nýta okkur það,“ segir Svanhildur.

Soroptimistaklúbbur Keflavíkur er stærsti klúbbur landsins

Soroptimistaklúbbur Keflavíkur er stærsti klúbburinn innan Soroptimistasambands Íslands. Hann var stofanaður 5. júní 1975 og telur 42 systur. Klúbburinn hefur á undanförnum árum styrkt Velferðarsjóð Suðurnesja, Björgina og Frú Ragnheiði, ásamt styrkjum til einstaklinga.

Allar tekjur klúbbsins koma frá árgjöldum systra og fjáröflunum og er fjármagnið nýtt til að styrkja konur og stúlkur þó samfélagið allt njóti vissulega góðs af stuðningi Soroptimista.

Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd, þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því besta sem völ er á. Samtökin vinna að bættri stöðu kvenna, að mannréttindum öllum til handa sem og jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlegri vináttu og skilningi að leiðarljósi. Samtök Soroptimista eru starfsgreinasamtök og er leitast við að hafa fulltrúa sem flestra starfsstétta til að fá sem breiðastan hóp.

Undirbúningur á fullu í sápugerð. Vökvinn fer í þessi hólf og síðan eru sápurnar skornar í passlegar einingar.