Alveg magnað hvað auðnin getur verið falleg
Hannes Hjalti Gilbert hefur gaman af að ferðast um á mótorhjóli og hann fór fjórar lengri ferðir um Ísland í sumar á mótorhjólinu. Hann samþykkti að deila með lesendum Víkurfrétta myndum úr sumarferðalögum og svara spurningum blaðamanns, sem eru bæði um ferðalög og ýmislegt annað og ótengt.
– Nafn:
Hannes Hjalti Gilbert.
– Árgangur:
1962.
– Fjölskylduhagir:
Giftur Þórunni Agnesi Einarsdóttur, við eigum þrjú börn, tvíburana Guðna Má og Helenu Rós, 25 ára og síðan er það Einar Hjalti á nítjánda ári.
– Búseta:
Keflavík.
– Hverra manna ertu og hvar upp alin?
Ólst upp hjá afa og ömmu í vesturbænum í Keflavík.
– Hvert var ferðinni heitið í sumarfrínu?
Við fórum í fjórar lengri ferðir í sumar. Í júní fórum hringferð um landið á mótorhjólinu ásamt góðum hópi fólks. Við tókum sex daga í hringinn og nutum fjölbreyttrar veðráttu. Við heimsóttum marga flotta staði og fengum góðar móttökur alls staðar. Franska safnið (Frakkar á Íslandsmiðum) á Fáskrúðsfirði var mjög áhugavert og Steinasafn Petru á Stöðvarfirði er alltaf ánægjulegur viðkomustaður. Við skruppum út í Hrísey og nutum leiðsagnar en það var í fyrsta heimsókn okkar hjóna þangað. Síðan var alveg dásamlegt að prófa VÖK, nýju böðin við Egilsstaði. Í júlí fórum við ásamt vinafólki okkar yfir Kjöl og það var mjög skemmtileg ferð. Bjart yfir öllu og fámennt á hálendi. Alveg magnað hvað auðnin getur verið falleg.
Um verslunarmannahelgina náðum við að taka börnin okkar með ásamt viðhengjum og skoðuðum Snæfellsnesið. Aftur vorum við heppin með veðrið og nesið fagra bauð upp á eitthvað fyrir alla. Fyrir þessa ferð var unga fólkið búið að stofna ferðaplan með hjálp Google Maps og þar með gátu allir sett inn það sem þeim langaði til að skoða yfir helgina og svo tókum við þetta bara nokkuð skipulega með smá útúrdúrum. Þetta var mjög vel heppnuð ferð þar sem að allir sáu eitthvað nýtt. Núna í ágúst fórum við svo hjónin bara tvö í langa helgarferð um Suðurlandið og nutum einstakrar veðurblíðu. Við áttum uppsafnaða ýmsa staði sem okkur hefur lengi langað til að heimsækja. Listinn er langur en við náðum þó að skoða Dyrhólaey, Reynisfjöru, flugvélaflakið á Sólheimasandi, fossinn Gljúfrabúa, Svartafoss í Skaftafelli, Fjarðarárgljúfur og Múlagljúfur.
Þar að auki erum við búin að hjóla ýmsar styttri leiðir og ganga marga slóðana en oft er allt slíkt ákveðið með stuttum fyrirvara og veðrið látið ráða för.
Það er svo margt fallegt að skoða hér á Reykjanesinu og höfum við verið að reyna að fara ýmsar gamlar þjóðleiðir eins og Preststígin, Sandgerðisveginn, Skógfellaveginn og svo eru það fellin og fjöllin í kringum okkur, eins og Þorbjörn, Þórðarfell, Fagradalsfjall og Keilir svo eitthvað sé nefnt.
– Skipulagðir þú sumarfríið fyrirfram eða var það látið ráðast af veðri?
Að hluta til var það skipulagt fyrirfram en síðan var veðrið látið ráða för.
– Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
Að sjá hversu mikil uppbygging hefur átt sér stað í ferðaþjónustunni.
– Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?
Allir landshlutar eiga sína sérstöðu en Héruðin og Borgarfjörður eystri eru mjög falleg og það landsvæði vil ég gjarnan skoða betur.
– Ætlar þú að ferðast eitthvað meira innanlands á næstunni?
Ekkert er skipulagt en hver veit?
– Hvert er þitt helsta áhugamál?
Ferðast um á mótorhjóli, skotfimi og útivist.
– Ertu að sinna áhugamálum eins og þú vildir?
Já, nokkurn veginn.
– Hvernig slakarðu á?
Þegar ég er út í náttúrunni á göngu eða á skotæfingu.
– Hvaða matur er í uppáhaldi hjá þér?
Þessi er erfið ... ætli það sé ekki grillmatur alls konar.
– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?
Ég hlusta mikið á Country og rokk, s.s. ZZ Top, Pink Floyd og þess háttar.
– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?
Rúv og Netflix, er mikill SciFi-maður; Star Trak og Star Wars.
– Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?
Fréttum.
– Besta kvikmyndin?
Forrest Gump.
– Hver er uppáhaldsbókin þín og/eða -rithöfundur?
Harry Potter, J.K Rowling.
– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?
Get verið of hreinskilinn.
– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?
Óheiðarleiki og undirferli.
– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?
Skrítið ár eftir að Covid kom en hefur samt haft góð áhrif, meðal annars þétt fjölskylduna enn meira.
– Hver er tilfinning þín fyrir haustinu og komandi vetri?
Mjög blendnar tilfinningar þar sem að COVID-veiran mun setja svip sinn á samfélagið og afkomu margra sem nærri okkur standa. Vonandi náum við sem þjóðfélag að standa saman í þessari vegferð og styðja þá sem á þurfa hverju sinni.