Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Alveg einstök Eyja
Föstudagur 25. desember 2009 kl. 20:07

Alveg einstök Eyja


Hún er 86 ára gömul, níu barna móðir, fæddist á sveitabæ á Austfjörðum, fór að hugsa um systkini sín ellefu ára gömul vegna veikinda móður sinnar og tekur lífinu með opnum örmum. Fanney Ingibjörg Sæbjörnsdóttir heitir konan en er alltaf kölluð Eyja og býr í Sandgerðisbæ. Við tökum hús á henni og hún er alveg hissa á heimsókninni enda er Eyja hógværðin uppmáluð.


„Ég ólst upp á afskekktum sveitabæ undir Sandvíkurheiði, á milli Bakkafjarðar og Vopnafjarðar. Ég er elst tíu systkina og fæddist árið 1923. Fjölskyldan flytur öll hingað til Sandgerðis árið 1945,“ segir Eyja. Hún giftist Jóhanni Óskari Þorkelssyni, sem fæddist á bæ nálægt Stafnesi, þau eignuðust saman níu börn, fimm stelpur og fjóra stráka. Eyja segist hafa orðið fljótt fullorðin vegna þess að hún þurfti að ganga systkinum sínum í móðurstað í tvö ár og aðstoða föður sinn í bústörfunum en þau voru sex fædd þegar móðirin veiktist.

Finnst gott að hafa hlutverk


„Eftir að börnin mín urðu fullorðin þá fór ég í saltfiskverkun og vann við það í fimmtán ár hér í plássinu,“ segir Eyja. Hún er ekkja og býr í Miðhúsum, húsnæði eldri borgara í Sandgerði og líkar vel. Eyja bað um að fá að aðstoða matráðskonuna Erlu Jóhannsdóttur í eldhúsi Miðhúsa en þar skenkir hún eldri borgurum sem koma í hádegismat á hverjum virkum degi.

„Mér finnst gott að fá að hjálpa til og hafa þar með hlutverk í stað þess að bíða bara eftir ellikerlingu. Það ættu allir eldri borgarar sem vilja hjálpa til í samfélaginu að fá að gera það, margir eru fullfrískir þegar þeir hætta að vinna en veslast svo kannski upp þegar þeir hafa ekkert að gera. Ég er frísk og finnst gaman að þessu,“ segir Eyja ákveðið. Hún þiggur engin laun en segist fá greidd ánægjulaun og það nægi henni.

Þrjá daga vikunnar föndrar Eyja með öllum þeim sem mæta í Miðhús til þess, hún er virkur þátttakandi í öllu sem boðið er upp á og hefur gaman af. Hún hefur ánægju af harmonikkuböllunum, leikhúsferðunum og sækir marga viðburði. Hún er einstaklega lifandi og hress 86 ára gömul kona, sem tekur alltaf hlýlega á móti öllu fólki.
Erla matráðskona segir að Eyja sé einstaklega jákvæð og sé alltaf til í að skreppa í kápuna og út úr húsi þegar henni sé boðið það.


Nýtur lífsins

„Ég trúi því, að ekki sé meira lagt á mig en ég þoli, ég hef gaman af svo mörgu. Einu sinni í viku fer ég í hressandi teygjuleikfimi sem boðið er upp á hér í bænum fyrir eldri borgara á þriðjudagsmorgnum. Ég hlakka alltaf til þess að mæta í tíma því þeir gera mér reglulega gott og liðka mig. Ég hugsaði ekki neitt sérstaklega um mig þegar ég var yngri til þess að vera svona frísk núna en ég finn núna að leikfimin er hressandi.

Ég hef innbyggða æðruleysisbæn og vinn úr því sem lífið leggur mér á herðar. Ég sofna með bænirnar mínar á kvöldin og vakna með þakklæti á morgnana þegar ég hef sofið vel. Þegar ég er að atast á daginn þá er líkamsþreytan meiri og ég sef betur. Ég vona á morgnana þegar ég vakna, að framundan sé góður dagur,“ segir Eyja rólega.

Stór fjölskylda

Eyja er líklega svona amma sem auðvelt er að láta sér þykja vænt um, því hún sýnir fólki einlægan áhuga á því sem það er að gera, hún hugsar meira um aðra en sjálfa sig. 
Hún á stóra fjölskyldu, 28 barnabörn á lífi og 33 langömmubörn en þau hittast alltaf í jólaföndri í nóvember í Miðhúsum og þá koma allir með eitthvað góðgæti á sameiginlegt borð. Á sumrin hafa þau farið saman í Úthlíð í einn dag.

Í lok viðtals þá bað Eyja mig ekkert að vera að gera mikið úr þessu viðtali, þetta væri ekki neitt neitt, en fyrir okkur hin er hún sannkölluð hvunndagshetja af gömlu kynslóðinni, heilbrigð og heiðarleg kona, alveg einstök Eyja.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Texti og myndir: Marta Eiríksdóttir // fyrir blómstrandi mannlíf í Víkurfréttum.