Alltaf verið svakalegt jólabarn
Signý Magnúsdóttir
„Ég hef alltaf verið svakalegt jólabarn og heimtaði alltaf að við myndum skreyta sem allra fyrst,“ segir Signý Magnúsdóttir. Eftirminnilegasta jólagjöfin sem hún hefur fengið er „risa“ Monster High kastali sem hún fékk þegar hún var átta ára en Apple TV er efst á óskalistanum hennar í ár.
Hvað stendur upp úr hjá þér árið 2022?
Ég byrjaði í unglingaráðinu þar sem ég kynntist helling af nýjum vinum og ég fékk svo að breyta alveg um vinahóp sem ég er svo þakklát fyrir og mér líður mikið betur.
Ert þú mikið jólabarn?
Já, ég hef alltaf verið svakalegt jólabarn og heimtaði alltaf að við myndum skreyta sem allra fyrst og byrjaði að horfa á jólamyndir í nóvember.
Hvað er það skemmtilegasta við jólin að þínu mati?
Ég elska stemmninguna við jólin og tilfinninguna sem fylgir þeim, að verja tíma með fjölskyldunni og baka eða horfa á jólamyndir og allt slíkt finnst mér æði.
Átt þú einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
Já, foreldrar mínir skildu þegar að ég var fjögurra ára og þegar ég var tíu ára var ég í fyrsta skipti hjá pabba mínum yfir jólin eftir skilnaðinn. Þá var kötturinn minn nýbúinn að eignast kettlinga og við vorum þarna öll fjölskyldan með fimm kettlinga um jólin og ég myndi líklegast segja að það séu eftirminnilegustu jólin mín.
En skemmtilegar jólahefðir?
Ég og fjölskyldan mín förum vanalega að rölta niður Laugaveginn á Þorláksmessu og förum á skauta og svoleiðis, það hefur alltaf verið uppáhaldshefðin mín.
Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?
Risa Monster High kastali sem ég fékk þegar að ég var átta ára.
Hvað er á óskalistanum þínum fyrir jólin í ár?
Mig langar svo mikið í Apple TV, ég er bara með Netflix í sjónvarpinu mínu og er eiginlega búin með allt þar.
Hvað er í matinn hjá þinni fjölskyldu á aðfangadag?
Alltaf hamborgarhryggur en ég borða ekki rautt kjöt svo ég borða alltaf bara meðlætið.
Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?
Bróðir minn er búinn að búa í Grikklandi síðasta árið og er nýkominn heim svo ég ætla að vera hjá pabba mínum til að geta varið góðum tíma með bróður mínum.