Alltaf nóg um að vera í ungmennahúsinu
-Spunaklúbbur, vikulegur hittingur hælisleitenda og forvarnardagur ungra ökumanna er meðal þess sem átti sér stað í 88 húsinu á liðnu ári
Nóg var um að vera í 88 húsinu og Fjörheimum síðastliðið ár og verður áfram á komandi ári, að sögn Gunnhildar Gunnarsdóttur, forstöðumanns. 88 húsið er ungmennahús Reykjanesbæjar og Fjörheimar félagsmiðstöð bæjarins. Í Fjörheimum er starfandi unglingaráð með fjörtíu meðlimum en þeir sjá um það að skipuleggja starf félagsmiðstöðvarinnar að mestu leyti.
„Við hugsum fyrst og fremst um skemmtanagildi. Við viljum að unglingarnir komi hingað til að hafa gaman. Svo leggjum við einnig mikla áherslu á forvarnir og fræðslu,“ segir Gunnhildur í samtali við Víkurfréttir.
Meðal starfseminnar sem fram fór í 88 húsinu á árinu er forvarnardagur ungra ökumanna, FIFA mót NFS (Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja, MORFÍs og Gettu betur æfingar nemendafélagsins, fatamarkaður sem opinn var öllum, undirbúningur fyrir lokapróf framhaldsskólanemenda, æfingar spunaklúbbsins Ýmis og vikulegur hittingur hælisleitenda sem búsettir eru í bænum og Rauði Krossinn stendur fyrir. Í Fjörheimum voru böll haldin fyrir grunnskólanemendur, gistinætur og íþróttamót svo fátt eitt sé nefnt.
Gunnhildur segir mikilvægt fyrir unglinga í nútímasamfélagi að gera eitthvað uppbyggjandi þegar tæknin sé svona mikil. „Unglingar hanga rosalega mikið heima og tala saman á netinu. Hér bjóðum við þeim að nýta frítíma sinn á uppbyggilegan hátt. Frístundir eru mikilvægar sem forvarnir og í átt að því að lifa heilbrigðum lífstíl.“
Starfsfólk Fjörheima og 88 hússins vill þakka fyrir frábærar stundir á árinu 2017.