Alltaf logn á eftir storminum
- Leiðsögumaður og ljósmyndanemi í Þórkötlustaðahverfi
„Ég kalla Þórkötlustaðahverfið alltaf þorpið en það er kannski nær því að vera dreifbýli enda aðeins um 15 til 20 hús austan við Grindavík,“ segir Sólveig M. Jónsdóttir, leiðsögumaður. Hún flutti í Þórkötlustaðahverfið fyrir tólf árum síðan með eiginkonu sinni, Önnu Sigríði Sigurjónsdóttur. Sólveig var að ljúka fyrsta ári sínu við Ljósmyndaskólann og á yfirlitssýningu fyrsta árs nema á dögunum sýndi hún myndir sem hún tók í Þórkötlustaðahverfi. Í daglegu tali segja Grindvíkingar að þeir séu að fara austur í hverfi en Þórkötlustaðahverfið er í um tveggja kílómetra fjarlægð frá Grindavík.
Fundu lítið sætt hús við sjóinn
Sólveig og Anna höfðu engin tengsl við hverfið eða Grindavík þegar þær fluttu þangað fyrir tólf árum síðan. Þær fundu lítið, fallegt hús við sjóinn og kveðst Sólveig vera hugfangin af svæðinu. „Það eru nokkur hús hérna, nánast í brimgarðinum. Sumir íbúanna hafa búið hér alla sína ævi, aðrir flutt úr Grindavík og svo er fólk eins og við sem er aðflutt. Öll þekkjumst við eða vitum hvert af öðru þó að það sé töluverð vegalengd á milli húsanna. Hér eru örnefni á hverri þúfu. Það eru ekki margir staðir í líkingu við Þórkötlustaðahverfi eftir á Íslandi.“ Sólveig kann vel við sig við sjóinn og vonast til að búa þar sem lengst. „Mér finnst svo æðislegt að búa hérna og njóta útsýnisins út á hafið. Það blæs reyndar oft hérna en það kemur alltaf logn á eftir storminum.“ Í hverfinu eru nokkrir bændur með sauðfé svo þar er svolítil sveitastemmning.
Mynd eftir Sólveigu, tekin í Þórkötlustaðahverfi.
Býður ferðamönnum heim í kaffi
Sólveig hefur verið leiðsögumaður víða um land í tæp tuttugu ár. Þegar hún er á ferð um Reykjanesið býður hún ferðafólki heim í kaffi og hefur það mælst vel fyrir. Það hafði lengi verið draumur Sólveigar að læra ljósmyndun. Ljósmyndaskólinn er úti á Granda í Reykjavík og keyrir Sólveig því daglega á milli í námið yfir vetrartímann. Námið tekur tvö og hálft ár. Hún kveðst vera sú elsta í bekknum en að það komi síður en svo að sök. „Námið er mjög skemmtilegt. Við höfum fengið góða innsýn í listasöguna, ljósmyndasöguna og ýmsa strauma og stefnur í ljósmyndun. Nemendur eru fáir svo kennslan hefur verið mjög persónuleg sem er gott í ljósmyndun,“ segir Sólveig. Hún hefur í náminu lagt áherslu á heimilda- og landslagsljósmyndun. Næsta sýning Sólveigar hjá Ljósmyndaskólanum verður við útskrift eftir eitt og hálft ár og er stefnan að sýna þá fleiri myndir úr Þórkötlustaðahverfi.
Ein af myndum Sólveigar sem hún sýndi á dögunum á yfirlitssýningu 1. árs nema við Ljósmyndaskólann. Myndin er tekin í Þórkötlustaðahverfi.