Alltaf best að ferðast innanlands
Hjónin Ásgeir Margeirsson og Sveinbjörg Einarsdóttir skelltu sér hringveginn í sumarfríinu. Þau ferðuðust á einkabíl og nýttu sér hótelgistingu allt í kringum landið. Víkurfréttir fengu Ásgeir til að svara nokkrum spurningum um sumarferðalagið og deila myndum úr því með lesendum.
– Var ferðalagið um landið skipulagt fyrirfram eða var fríið látið ráðast af veðri og vindum?
„Það var skipulagt fyrirfram og tekin hliðsjón af veðurspám, sem reyndar gengu ekki alveg eftir eins og vonast var til.“
– Hvaða viðkomustaður var áhugaverðastur?
„Þeir voru margir, s.s. Vatnsnes, Stuðlagil, firðirnir á Austfjörðum og Þakgil.“
– Eitthvað sem kom skemmtilega á óvart?
„Já. Við hittum mjög marga vini og kunningja á ferðalaginu, það voru svo margir „á hringnum. Einnig var áhugavert hve margir bílar voru með hjólhýsi eða fellihýsi og mikla undrun okkar vakti, við þessar skrýtnu aðstæður, hve fáar rútur voru á hringveginum.“
Ásgeir segir að nokkuð margir hafi verið á ferli á hringveginum þegar hann var þar á ferðinni í sumar.
– Hver er kosturinn við það að ferðast innanlands?
„Það er alltaf best, svo einfalt er það. Maður upplifir alltaf eitthvað nýtt á ferð um landið og vissulega er einnig gaman að koma aftur á staði sem maður hefur vitjað fyrr.“
– Hefur þú ferðast mikið innanlands? Áttu þér uppáhaldsstað sem þú sækir oft eða er eitthvað sem þig langar virkilega að skoða?
„Ég hef ferðast mjög mikið innanlands og víða og uppáhaldsstaðirnir eru margir. Enn á ég eftir að skoða margt, s.s. fara betur um Norðausturland.
– Á eitthvað að ferðast meira núna í haust?
„Það er mjög líklegt, einhverjar styttri ferðir.“
– Hvernig er COVID-19 ástandið að leggjast í þig um þessar mundir og hverjar finnst þér horfurnar vera inn í haustið og veturinn?
„Þetta er afar sérstakt ástand og merkileg lífsreynsla. Það góða er að lausnin er tiltölulega einföld; við öll sem eitt gætum vel að okkur, fylgjum leiðbeiningum og þá mun okkur vel farnast.“