Allt frá litlum og krúttlegum húðflúrum
Happdrætti á Ljósanótt hjá Raven Ink á Hafnargötu fimmtudaginn 31. ágúst kl. 17:00–22:00
Húðflúrarinn Dagný Draupnisdóttir byrjaði með eigin húðflúrstofu á Hafnargötu 35 árið 2018. Þá var hún með aðstöðu í galleríi hjá listakonunni Tobbu. Síðan Tobba flutti galleríið sitt til Reykjavíkur í lok árs 2019 hafa þau Jón Þór Ísberg og Svanlaug Birna Sverrisdóttir bæst í hópinn. Jón Þór er flúrari eins og Dagný en Svanlaug býður upp á líkamsgatanir.
Samstarf þeirra Dagnýjar og Jóns Þórs hófst fyrir um einu og hálfu ári síðan þegar vinur Jóns Þórs benti honum á stofuna hennar Dagnýjar en Dagný hafði lært hjá þessum vini hans.
„Svanur benti mér á að tala við hana og sagði mér aðeins frá stofunni. Ég labbaði nokkrum sinnum framhjá stofunni hérna á Hafnargötunni án þess að finna hana en þá leit þetta út eins og listagallerí,“ segir Jón Þór. „Þegar ég kom fékk Dagný smá spark í rassinn og ásýndin á húsnæðinu breyttist úr listagallerí í tattoostofu og listagallerí.“
„Ég var búin að hafa það mjög gott í kúlunni minni og var ekki að auglýsa, finnst mjög óþægilegt að vera áberandi. Ég var bara ein með mína föstu kúnna og það var að ganga vel. Ég er svolítið kassalöguð og ekkert mikið fyrir að fólk detti bara inn af götunni í óbókaða tíma. Svo kom Jón inn og hann er allt öðruvísi en ég,“ segir Dagný.
Jón Þór bættist í hópinn fyrir um einu og hálfu ári síðan en hann er alls enginn nýgræðingur í húðflúrfaginu. Jón Þór fagnar 25 ára starfsafmæli í næsta mánuði.
„Ég byrjaði að læra hjá Helga tattoo en síðan fluttist ég til Englands í nokkur ár og kom svo aftur til Íslands í nokkur ár áður en ég fór að ferðast um heiminn þangað til Covid byrjaði. Þá breyttist raunveruleikinn hjá mér eins og svo mörgum,“ segir Jón Þór sem hefur unnið í hátt í hundrað stúdíóum á þessum 25 árum. „Ég hef pikkað upp eitt og annað, héðan og þaðan á þessum tíma og hér er ég í einhverjum litlum smábæ á Íslandi, sem var ekki alveg planið, en er samt afskaplega ánægður með það.“
Dagný, þú ert nú ekki alveg með 25 ára starfsreynslu, er það?
„Nei, ekki alveg. Ég byrjaði að flúra árið 2017 hjá Svani á Tattoo og skart.“
En þú Svanhildur, hefur þú verið lengi að gata?
„Ég get ekki sagt það, ég fór til Bretlands fyrir um einu og hálfu ári síðan og lærði götun þar. Það er lítið sem ekkert hægt að læra götun á Íslandi svo ég notaði tækifærið og skellti mér til Bretlands á námskeið.
Ég er hérna að meðaltali svona einn dag í viku að gata en svo rek ég líka hárgreiðslustofu hér á hæðinni fyrir ofan,“ segir Svanhildur.
Gerólíkir stílar
Dagný og Jón Þór eru mjög ólíkir flúrarar og má segja að þau vegi hvort annað upp.
„Hún er ennþá í bleyjunni en það á eftir að rætast úr þessari ungu stúlku,“ segir Jón Þór hlæjandi. „Hún er ung og efnileg en ég bara gamall og bitur og búinn að hlaupa nokkra hringi í kringum blokkina – en það er heilmikill munur okkar á milli. Aftur á móti þá vinnum við mjög vel saman en stílarnir eru alveg svartir og hvítir.“
„Það er mjög fínt. Það eru mörg verk sem ég treysti mér engan veginn í og þá vísa ég hiklaust á Jón Þór,“ segir Dagný og Jón Þór tekur undir það. Ég segi það sama, hún er betri í sumum verkum og þá sendi ég á hana. Þetta er mjög þægilegt upp á það að gera,“ segir Jón Þór.
„Ég er rosalega mikið í „dot work“ og „fine line“. Bara svona fínar línur, mandölu- og blómaflúr. Svona lítil og krúttleg sem hann er ekki hrifinn af,“ segir Dagný og hlær.
„Ég leyfi henni alveg að eiga það,“ segir Jón. „Ég hef rosalega gaman af að vinna stór verkefni, mér þykir líka gaman að vinna svona „dot work“ en í stærri skala, svona japönsku og svo mörgu öðru. Ég hef mjög gaman af formum sem maður vinnur saman, býr til einhverja heild og grípur mann.“
Jón Þór hefur verið lengi í bransanum og segist fær í flestan sjó. „Ég get gert nánast allt en það eru sumir stílar sem ég er ekki góður í. Þá bendi ég á aðra sem geta gert það margfalt betur en ég og bið fólk að heyra í þeim. Ég væri alveg til í peninginn en eftir alla þá reynslu sem ég hef safnað mér þá myndi ég skammast mín fyrir að taka þannig verk að mér. Ég nefni t.d. stíl sem hefur verið mjög vinsæll að undanförnu, svona „water color effect“, það eru aðrir svo miklu betri en ég í þeim.“
Jón Þór vinnur mikið með lituð verk en vatnslitastíllinn hentar honum ekki. Flúrin hennar Dagnýjar eru flest í svart/hvítu. „Þau eru langmest svart/hvít en það koma alveg litaverk inn á milli,“ segir hún.
Bæði Dagný og Jón Þór vinna að annarri list sem má sjá uppi á veggjum á húðflúrstofunni. Það má segja það sama um listaverkin þeirra, þau eru mjög ólík. Þau segjast hins vegar hafa minni tíma til að sinna myndlistinni þessa dagana því það sé svo mikið að gera í að flúra.
Flass-happdrættið sló í gegn á síðustu Ljósanótt
Þau á Raven Ink voru með uppákomu á síðustu Ljósanótt þar sem þau buðu viðskiptavinum að taka þátt í flass-happdrætti. Það gengur þannig fyrir sig að í pottinum eru 45 myndir og fimm gjafabréf á stofuna sem eru hvert að verðmæti 15.000 til 50.000 krónur. Þeir sem taka þátt í happdrættinu borga 10.000 krónur og draga óvænt flúr en ef þeir eru ekki ánægðir með myndina geta þeir borgað fimm þúsund kall til að velja sér mynd úr pottinum.
„Í fyrra þurftum við að bæta við tímum á laugardeginum því það komu miklu fleiri en við bjuggumst við,“ segja þær Dagný og Svanlaug. „Við bjuggumst alls ekki við þessu í fyrra og vorum alveg í sjokki,“ segir Svanlaug.
„Já, við ætluðum að panta pizzu áður en við byrjuðum og hafa það bara kósí á milli þess að flúra,“ segir Dagný. „Við náðum ekki einu sinni að grípa súkkulaðistykki á milli, það var svo mikil traffík.
Ég býst við að við höfum aftur opið á laugardeginum þótt happdrættið verði búið. Þá getur fólk bara komið í svona „walk in“ ef það vill,“ sagði Dagný að lokum.