Alexander og fjölskylda Grindvíkingar ársins
- Klökk, hrærð og hamingjusöm.
„Er klökk, hrærð og hamingjusöm. Takk fyrir að sýna okkur Alexander og fjölskyldu þann heiður að velja okkur Grindvíking ársins. Verð að segja sannleikanum samkvæmt að það féllu nokkur hamingju- og gleðitár við að lesa öll fallegu orðin sem sögð voru um drenginn okkar og fjölskyldu,“ segir Elín Björg Birgisdóttir, móðir Alexanders Birgis Björnssonar á Facebook síðu sinni rétt í þessu.
Elín Björg vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem lögðu þeim lið við ævintýrið í kringum tónleikana Ég og fleiri frægir í lok nóvember. „Allt þetta frábæra og óeigingjarna tónlistarfólk og allir aðrir sem lögðu okkur lið. Þetta á eftir að lifa í minningunni um aldur og ævi. Alexander hefur kennt okkur svo ótal margt og auðgað líf okkur með sínu hreina og tæra hjartalagi,“ segir Elín Björg.
Eins og áður hefur komið fram tóku Víkurfréttir viðtal við Alexander og Elínu Björgu fyrir og eftir tónleikana og voru viðtölin birt í Víkurfréttum, á vf.is og í Sjónvarpi Víkufrétta.