Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Alexander Logi dúx á vorönn
Laugardagur 1. júní 2024 kl. 06:06

Alexander Logi dúx á vorönn

Alexander Logi Chernyshov Jónsson var dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja á vorönn 2024 með 9,97 í aðaleinkunn. Skólaslit vorannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram á sal skólans föstudaginn 24. maí.

Að þessu sinni útskrifuðust 118 nemendur; 81 stúdent, 20 luku verknámi, 5 útskrifuðust af sjúkraliðabraut, 10 af starfsbrautum og tveir af framhaldsskólabraut. Karlar voru 61 en konur 57. Alls komu 85 úr Reykjanesbæ, 16 úr Suðurnesjabæ, 8 úr Grindavík, 4 úr Vogum og einn úr Reykjavík, Garðabæ, Búðardal og Selfossi auk skiptinema frá Belgíu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Leó Máni Quyen Nguyén nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Inga Lilja Eiríksdóttir kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Að venju var flutt tónlist við athöfnina en að þessu sinni lék Ívar Snorri Jónsson nýstúdent á píanó og Ívar Snorri flutti einnig frumsamið lag á rafgítar ásamt Vilhjálmi Páli Thorarensen á rafbassa og Magnúsi Má Newman á trommur.

 Leó Máni Quyen Nguyén nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra.
Inga Lilja Eiríksdóttir kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks.
Ívar Snorri, Magnús Már og Vilhjálmur.

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og þátttöku í félagslífi. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Alexander Logi Chernyshov Jónsson styrkinn. Alexander hlaut einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi en hann útskrifaðist af raunvísindabraut með 9,97 í meðaleinkunn.

Við útskriftina veittu foreldrafélag skólans og Reykjanesbær verðlaun fyrir jákvæða framkomu á skemmtunum nemendafélagsins í vetur. Það var Lilja Dögg Friðriksdóttir forvarnafulltrúi skólans sem afhenti verðlaunin. Þau Hólmgrímur Svanur Hólmgrímsson og Margrét Karítas Óskarsdóttir voru dregin úr hópi þeirra nemenda sem uppfylltu skilyrðin fyrir þátttöku en þau fengu bæði spjaldtölvu að gjöf.

Hólmgrímur Svanur og Margrét Karítas fengu verðlaun fyrir jákvæða framkomu.

Guðbjörg Ingimundardóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita nemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þær Elín Snæbrá Bergsdóttir, Fjóla Margrét Viðarsdóttir, Veiga Dís Halldórsdóttir og Yasmin Petra Younesdóttir fengu 35.000 kr. styrk fyrir góðan árangur í tjáningu og ræðumennsku.

Elín Snæbrá, Fjóla Margrét, Veiga Dís og Yasmin Petra fengu styrk.

Margir verðlaunahafar

Alexander Logi Chernyshov Jónsson, dúx FS á vorönn 2024.

Á útskrift vorannar voru að venju veittar viðurkenningar fyrir góða frammistöðu í námi og þátttöku í félagslífi. Að þessu sinni var Alexander Logi Chernyshov Jónsson með hæstu einkunn við útskrift en hann var með hvorki meira né minna en 9,97 í meðaleinkunn. Það voru fleiri sem stóðu sig afar vel eins og lesa má hér að neðan. Fleiri fengu viðurkenningar, sjá nánar á heimasíðu FS.

Alexander Logi Chernyshov Jónsson fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í eðlisfræði og spænsku. Hann fékk einnig gjafir frá Landsbankanum fyrir árangur sinn í stærðfræði og raungreinum og erlendum tungumálum og verðlaun frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði. Alexander fékk Raungreinaverðlaun HR sem veitt eru fyrir góðan árangur í raungreinum á stúdentsprófi. Alexander fékk námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Alexander 100.000 kr. styrk en hann var með 9,97 í meðaleinkunn. Hann fékk einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.

Eva Margrét, þriðja frá hægri, með fjölskyldu sinni.

Eva Margrét Falsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í líffræði. Hún fékk gjöf frá Landsbankanum fyrir árangur sinn í íslensku, viðurkenningar frá Verkfræðistofu Suðurnesja og Stærðfræðifélaginu fyrir góðan árangur í stærðfræði og viðurkenningu frá Þekkingarsetri Suðurnesja fyrir góðan árangur í náttúrufræðigreinum. Þá fékk Eva Menntaverðlaun HÍ en þau eru veitt útskriftarnemenda sem hefur sýnt framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs auk þess að hafa sýnt eftirtektarverða frammistöðu á sviði lista eða íþrótta, átt mikilvægt framlag til skólafélaga eða skólans eða sýnt þrautseigju við erfiðar aðstæður.

Ernir Erlendsson fékk verðlaun frá skólanum fyrir góðan árangur í ensku, íslensku og sálfræði. Hann fékk einnig gjöf frá Landsbankanum fyrir árangur sinn í samfélagsgreinum og viðurkenningu frá Sögufélaginu fyrir góðan árangur í sögu.

Emelíana Líf Ólafsdóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í efnafræði og spænsku. Hún fékk viðurkenningu frá Efnafræðifélaginu fyrir góðan árangur í efnafræði og verðlaun frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði.

Linda María Ásgeirsdóttir hlaut viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í efnafræði, ensku og stærðfræði. Hún fékk einnig verðlaun frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði.

Hlynur Snær Snorrason fékk verðlaun fyrir góðan árangur í vélstjórnargreinum og  gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í verk- og tæknigreinum.

Lovísa Bylgja Sverrisdóttir fékk viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan árangur í efnafræði og verðlaun frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði.

Arnar Smári Hannesson fékk viðurkenningu frá Isavia fyrir góðan árangur í verk- og tæknigreinum og einnig gjafir frá Ískraft, Rönning og Reykjafelli fyrir árangur sinn í rafiðngreinum.