Aldrei of mikið af tónlist
Sólmundur Friðriksson er frá Stöðvarfirði en giftist Keflavíkurmær. Þau hafa verið dugleg að nota Folaldið í sumar og ferðast austur á æskustöðvarnar. Í netspjalli við Víkurfréttir segir Sólmundur okkur upp og ofan af sumri þeirra hjóna.
– Nafn:
Sólmundur Friðriksson.
– Árgangur:
1967.
– Fjölskylduhagir:
Giftur Keflavíkurmærinni Hafdísi Lúðvíksdóttur og saman eigum við eina dóttur. Svo á ég tvær uppkomnar dætur frá fyrra hjónabandi.
– Búseta:
Stekkjargata í Innri-Njarðvík.
– Hverra manna ertu og hvar upp alin?
Sonur hjónanna Sólveigar Sigurjónsdóttur frá Snæhvammi í Breiðdal og Friðriks Sólmundssonar, útgerðarmanns á Stöðvarfirði. Ólst upp í þeim fagra firði.
– Hvert var ferðinni heitið í sumarfrínu?
Á æskustöðvarnar fyrir austan.
– Skipulagðir þú sumarfríið fyrirfram eða var það látið ráðast af veðri?
Skipulögðum fyrirfram ferð með tengdafólkinu mínu á æskustöðvar tengdamömmu í Neskaupsstað.
– Hvaða staður fannst þér áhugaverðast að heimsækja í sumar?
Skoðaði Reynisfjöru í fyrsta skipti á fallegum degi, eftir að hafa brunað þar framhjá í ótal skipti síðastliðin 50 ár.
– Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
Þessi sérstaka stemmning í kjölfar Covid, að vera á ferðalagi um Ísland umvafinn Íslendingum, hvort sem var á sjoppum, hótelum eða veitingastöðum.
– Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?
Það verður alltaf Stöðvarfjörður.
– Ætlar þú að ferðast eitthvað meira innanlands á næstunni?
Já, okkur langar til að elta sólina hér sunnanlands eina eða tvær helgar áður en Folaldið (litla fellihýsi fjölskyldunnar) verður sett á hús.
– Hvert er þitt helsta áhugamál?
Tónlist, söngur og spil.
– Ertu að sinna áhugamálum eins og þú vildir?
Aldrei of mikið af tónlist. Syng reglulega með vinum mínum í Kóngunum en er að vinna í að spreyta mig meira á einsöngnum. Bassafanturinn fær svo árlega útrás í Blikinu en mætti alveg halda sér betur í formi.
– Hvernig slakarðu á?
Yfir morgunkaffibollanum með Dísinni minni
– Hvaða matur er í uppáhaldi hjá þér?
Fiskur og svo afgangar.
– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?
Er mjög hrifinn af þessum ungu íslensku poppurum, eins og Bríeti, Auði og GDRN. Gott fyrir svona gamla jálka að vera togaðir upp úr nostalgíunni svona við og við.
– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?
Þó nokkuð á kvöldin. Finnst best að velja mér eitthvað á Netflix eða á Frelsinu.
– Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?
Smáborgarasýn Frímanns á RÚV.
– Besta kvikmyndin?
Shawsank Redemption hefur setið þar lengi og ekki enn verið velt af þeim stalli.
– Hver er uppáhaldsbókin þín og/eða -rithöfundur?
Jón Kalman finnst mér alveg magnaður.
– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?
Þegar ég læt allt fara í taugarnar á mér.
– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?
Tillitsleysi.
– Uppáhaldsmálsháttur eða -tilvitnun:
„Life is what happens to you while you’re busy making other plans“ – John Lennon.
– Hver er elsta minningin sem þú átt?
Stóra systir er að passa mig með vinkonum sínum um kvöld. Búið að fara með mig inn að sofa. Ég stend uppi rimlarúmi og geri mér upp grát til að stelpurnar komi inn til mín og taki mig með sér fram í fjörið.
– Orð eða frasi sem þú notar of mikið:
„Þessir andskotar…“
– Ef þú gætir farið til baka í tíma, hvert færirðu?
Til Los Alamos í Nýju Mexíkó árið 1945 til að rugla í formúlum Oppenheimers og félaga í Manhattan-prójektinu.
– Hver væri titillinn á ævisögu þinni?
Ég lifi í draumi.
– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?
Mjög skrýtnir tímar og breytingar út af þessari „jarðarveiru“ sem enginn gat séð fyrir. Ég veit að margir hafa átt erfitt, sérstaklega þeir sem hafa ekki stuðningsnet fjölskyldu og vina. Hvað mig varðar þá átti ég góðan tíma og samveru með mínum nánustu og svo kom þetta íslenska ferðasumar eins og bónus í kjölfarið. Mér finnst, eins og eflaust fleirum, að þessir tímar hafi fengið okkur sem samfélag til að staldra við og endurmeta stöðu okkar í þessari veröld, eins og ákveðinn doði hafa vikið fyrir aukinni samkennd. Ég held og vona svo innilega að manneskjan nái auknum þroska og skilningi út úr þessari reynslu. Það er a.m.k. mín upplifun að ofan á allar raunir fólks í veikindum og einsemd vegna takmarkana að fjarlægðin virki einhverja krafta í okkur sem gerir okkur nánari. Það gefur gott tilefni til að setja í bundið mál:
Á þessum tímum þykir mér,
er þokast eigum fjær,
að fjarlægðin sem faðmur er
færi okkur nær.
– Hver er tilfinning þín fyrir haustinu og komandi vetri?
Bara góð. Haustið er alltaf minn uppáhaldstími og nú er spennandi að sjá hvernig verður í þessu nýja veruleika. Hef fulla trú á að við höldum áfram að efla okkur í náungakærleiknum.
– Hver er besti brandari sem þú hefur heyrt nýlega?
Maður er að verða allt of gleyminn á slíkt og segir alltaf sömu brandarana aftur og aftur. Held mig því við þá gömlu og hér er einn:
Maður einn kíkti í heimsókn í vinnuna til vinar síns sem var apótekari. Hann sá sér leik á borði og bað hann um að passa fyrir sig búlluna meðan hann brygði sér frá í hálftíma. Þegar apótekarinn sneri aftur spurði hann vin sinn hvort einhver hefði komið meðan hann var í burtu.
„Já, það kom einn með alveg svakalegan hósta,“ svaraði vinurinn.
„Og þú hefur náttúrlega selt honum hóstasaft,“ sagði apótekarinn.
„Nei, alls ekki. Ég lét hann hafa laxerolíu,“ svaraði vinurinn.
„Guð minn góður! Hún virkar ekkert á hósta,“ sagði apótekarinn og fórnaði höndum.
„Jú, heldur betur,“ svaraði vinurinn og benti út um gluggann. Sérðu! Þarna stendur hann við staur og þorir ekki að hósta.“