Afþreying: Fresh Prince, spennusögur og Jackson
Hvað er Thelma Dís Ágústsdóttir að vinna með?
Hin 17 ára Thelma Dís Ágústsdóttir var um helgina kjörin besti leikmaður meistaraflokks kvenna í körfunni í Keflavík. Thelma er ekki mikill lestrarhestur en hefur þó gaman af góðum spennusögum. Hún hefur breiðan tónlistarsmekk, þar sem hún hlustar á allt frá Michael Jackson til Drake. Hún er fyrir klassíska sjónvarpsþætti þar sem Friends og The Fresh Prince of Bel Air eru í sérstöku uppáhaldi.
Bókin
Ég myndi nú ekki kalla mig mikinn lestrarhest en síðasta bók sem ég las var Gildran eftir Lilju Sigurðardóttur. Ótrúlega spennandi og skemmtileg bók um konu sem aflar sér peninga með því að smygla fíkniefnum til landsins. Ég les annars helst spennusögur og þá finnst mér bæði Arnaldur og Yrsa flottir höfundar.
Tónlistin
Ég hlusta mikið á alls konar tónlist. Undanfarið hef ég verið að hlusta á Beyoncé og Drake en hef líka verið að hlusta á þessi gömlu góðu með Sálinni í bland við eldri lögin frá Chris Brown, Rihönnu og fleirum. Síðan hlustar maður nú einstaka sinnum á þessi klassísku frá Queen og Michael Jackson. Þar kemur lagið The Girl is Mine sterkt inn þó ég kjósi það nú frekar í flutningi frændsystkina minna.
Sjónvarpsþátturinn
Ég horfi líka talsvert á sjónvarpsþætti, þá aðallega á grín- og dramaþætti. Um þessar mundir er ég að horfa á The Fresh Prince of Bel Air með Will Smith en þar fer hann á kostum sem unglingur frá Philadelphiu sem flytur inn til frændfólks síns í Bel Air. Friends verða þó alltaf í uppáhaldi. Ég horfi líka á nánast allar íþróttir og hef undanfarið verði að horfa á heimildamyndir um íþróttir og íþróttafólk.