AFHVERJU NEKTARBÚLLU Í REYKJANESBÆ?
Spurningin hér að ofan hefur hljómað oft í eyrum undirritaðs undanfarna daga eða frá því að fréttist af því að það stæði til að opna nýjan skemmtistað hér í bæ. Skemmtistað þar sem dans fáklæddra eða naktra stúlkna á að vera megin skemmtiefnið.Það er von að fólk spyrji sig þessarar spurningar, sérstaklega í kjölfar neikvæðrar umræðu um sambærilega staði í höfuðborginni okkar. Í umræðunni um nektarbúllurnar í Reykjavík hafa sumir aðilar sem vel þekkja til á stöðum þessum fullyrt að eiturlyfjaneysla og sala ásamt vændi viðgengist á stöðunum sjálfum eða tengist þeim á annan hátt.Þessvegna spyrja margir íbúar Reykjanesbæjar sig þeirrar spurningar hverju slíkur staður bæti við bæjarlífið í bænum okkar. Í fljótu bragði dettur undirrituðum ekki hug nein jákvæð áhrif af slíkum stað eða neitt gott sem hann hefur til bæjarlífsins að færa. En aftur á móti tel ég að ákveðin hætta geti fylgt tilkomu slíks staðar hér í bæ, í ljósi þess orðsspors sem fer af samskonar stöðum í Reykjavík. Ég tel þó ekki að þeir aðilar sem ætla að reka staðinn hafi neitt illt í hyggju heldur frekar að þeir hafi ákveðið þetta í hugsunarleysi og ekki gert sér grein fyrir því að hér í Reykjanesbæ er ekki almennur vilji til þess að hafa slíkan stað í bænum. Í flestra hugum er þetta óþörf og í versta falli hættuleg viðbót við bæjarlífið.Samkvæmt minni vitneskju hefur umsókn um rekstrar- og vínveitingarleyfi til handa staðnum ekki verið lagt fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Íbúar Reykjanesbæjar eru svo heppnir að í bæjarstjórn okkar situr skynsamt fólk og vil ég hvetja bæjarstjórnina til þess að hafna leyfi til handa staðnum þegar sú umsókn berst til afgreiðslu. Með því að hafna leyfinu væri bæjarstjórn Reykjanesbæjar að senda skýr skilaboð til allrar þjóðarinnar um að í - Reykjanesbæ byggi fólk sem er annt um umhverfi sitt og bæjarbraginn og leggja lið þeim yfirgnæfandi fjölda bæjarbúa sem vilja halda Reykjanesbæ áfram á réttu róli.Með forvarnakveðjuEysteinn Eyjólfsson, verkefnisstjóri Reykjanesbæjar á réttu róli.