Afhentu afrakstur afmælistónleikanna í minningarsjóð Vilhjálms
Aðstandendur tvennra tónleika sem haldnir voru í tilefni 60 ára afmælis Myllubakkaskóla í vor létu afraksturinn 600 þús. kr. renna í minningarsjóð Vilhjálms Ketilssonar. Sigrún Ólafsdóttir, ekkja Vilhjálms tók við peningagjöfinni í Myllubakkaskóla í gær.
Minningarsjóðurinn var stofnaður eftir fráfall Vilhjálms sem var skólastjóri í Myllubakkaskóla í nærri aldarfjórðung eða frá 1978 til 2003 en hann var bráðkvaddur 6. sept. það ár. Vilhjálmur var bæjarstjóri í Keflavík í tvö ár á þessu tímabili, árin 1986-88. Veitt hafa verið verðlaun og styrkir árlega úr minningarsjóðnum við skólaslit í Myllubakkaskóla.
Haldnir voru tvennir tónleikar 1. apríl undir heitinu „Gamli skólinn minn“ og komu margir þekktir keflvískir tónlistarmenn fram, m.a. Magnús Kjartansson, Gunnar Þórðarson, Valdimar, Elísa Newman og fleiri og gáfu þeir vinnu sína sem og lang flestir sem komu að vinnu við tónleikana.
Þær stöllur Íris Dröfn Halldórsdóttir, Freydís Kneif Kolbeinsdóttir og Gunnheiður Kjartansdóttir voru í eldlínunni við undirbúning og framkvæmd tónleikanna og þökkuðu þær öllum sem komu að þeim.
Hér má sjá myndasafn í safni vf.is frá tónleikunum sem haldnir voru í menningarhúsi Andrews á Ásbrú.
Við afhendingu styrksins í gær sungu ungar Keflavíkurdömur tvö lög.