„Ætlum að fylla þessa kirkju mína“
-Arnar Dór og Hera Björk syngja inn jólin í Keflavíkurkirkju í kvöld
„Það er alltaf svo gaman hjá okkur. Við ætlum að fylla þessa kirkju mína. Ég er Keflvíkingur í húð og hár og það er alltaf sérstakt að koma heim,“ segir söngvarinn Arnar Dór en næstkomandi þriðjudagskvöld, þann 12. desember kl. 20:30, syngur hann á tónleikum Heru Bjarkar, „Ilmur af jólum“, í Keflavíkurkirkju.
Hera gaf út sína fyrstu plötu fyrir sautján árum síðan, en sú plata bar sama heiti. Síðustu fjögur ár hefur hún svo haldið jólatónleika í Grafarvogskirkju. Í ár heldur hún tónleikana í fyrsta sinn víðs vegar um landið og fær söngvara úr heimabyggð með sér í lið.
	Að sögn Arnars Dórs hefur vel gengið að æfa, en teymið hafi kannski eytt full miklum tíma í að hlæja.
	Á tónleikunum verða jólalög af plötu Heru Bjarkar flutt, sem og alls konar önnur jólalög, en hægt er að nálgast miða á midi.is.

 
	
				

 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				