Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ætlar sér að leikstýra í framtíðinni
Laugardagur 24. mars 2018 kl. 06:00

Ætlar sér að leikstýra í framtíðinni

- Árni Þór Guðjónsson er yngsti sigurvegari Örvarpans

Árni Þór Guðjónsson sigraði á dögunum Örvarpann en hann er yngsti verðlaunahafinn frá upphafi, aðeins fimmtán ára gamall. Val á sigurvegara keppninnar fór fram í gegnum áhorfendakosningu á menningarvef RÚV. Samkvæmt heimasíðu RÚV er Örvarpið vettvangur íslenskra örmynda og ætlað öllum þeim sem hafa áhuga á kvikmyndalist og annars konar listformum, reyndum sem óreyndum, ungum og öldnum. Árni Þór fékk viðurkenningarskjal í verðlaun ásamt Go Pro Hero myndavél.

Sigurinn kom Árna á óvart en myndin var upphaflega ekki gerð fyrir Örvarpann. „Ég gerði þessa mynd fyrir aðra örmyndasamkeppni í Bandaríkjunum en mamma benti mér á þessa keppni og hvatti mig til þess að senda myndina í hana. Ég bjóst alls ekki við því að sigra og ég er mjög þakklátur fyrir að mamma skildi sjá Örvarpann auglýstan og sé ekki eftir því að hafa tekið þátt.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leikaraval myndarinnar er ekki af verri endanum, enginn annar en Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, leikur stórt hlutverk í henni. „Mig vantaði fiðluleikara og eini fiðluleikarinn sem mér datt í hug var Kjartan Már. Ég hafði samband við hann og hann var alveg til í að taka þátt en hann er svakalegur í sínu hlutverki og negldi þetta.“

Árni vann hugmyndina að myndinni með föður sínum og segir það ansi krefjandi að reyna að koma inn söguþræði á einni mínútu. „Ég sendi þessa mynd fyrst inn í keppni og þátttökuskilyrðin í henni voru þau að myndin mætti ekki vera lengri en mínúta. Mig vantaði hugmynd að mynd sem tæki eina mínútu og við pabbi fórum að vinna með hugmyndina sem var mjög krefjandi en þetta tókst vel að lokum. Myndin er líka á ensku af því að keppnin sem ég sendi hana upphaflega í var með þau skilyrði að hún yrði að vera á ensku.“

Tökudagurinn var ekki langur, um þrír til fjórir klukkutímar, og er hún tekin upp í Reykjanesbæ. „Myndin er meðal annars tekin upp í DUUS húsum en Valgerður Guðmundsdóttir gaf mér leyfi til að taka upp í einum sala húsanna og kann ég henni bestu þakkir fyrir afnotin af honum.“

Eins og áður hefur komið fram vildi Árni hafa skemmtilegan söguþráð og vill hann lítið segja frá honum án þess að gefa upp alla myndina. Hún er um konu sem er í vanda, eða slæmum aðstæðum, og myndin er í raun og veru um hvernig þær aðstæður leysast, en endirinn kemur áhorfendum á óvart.“

Örvarpið var í tengslum við Stockfish Film Festival og voru allar tíu myndirnar sem komust í úrslit sýndar í Bíó Paradís á fimmtudegi og síðan var lokahóf á laugardeginum þar sem að verðlaunaafhendingin fór fram.

Árni hefur verið að gera stuttar myndir og myndbönd í töluvert langan tíma, en hvaðan kemur áhuginn?

„Ég elskaði bíómyndir þegar ég var lítill og hugsaði með mér að þetta gæti ég örugglega gert. Þegar ég var yngri var ég alltaf að gera frisbímyndbönd, sem ég er reyndar hættur núna og er meira í stuttmyndböndum, en þegar ég var að gera frisbímyndböndin og klippa þau þá lærði ég helling. Hvert einasta myndband sem maður gerir kennir manni eitthvað nýtt.“ Árni hvetur ungt kvikmyndagerðarfólk til þess að fylgja draumum sínum ef það hefur áhuga á myndbandagerð og einhverju því tengdu. „Ef þetta er eitthvað sem þú hefur áhuga á þá mæli ég hiklaust með því en þetta er alveg ótrúlega skemmtilegt. Í framtíðinni langar mig til þess að leikstýra og á það set ég stefnuna. Ég fór í New York Film Academy á námskeið síðasta sumar þar sem ég lærði mjög mikið. Ég ætla að halda áfram að gera fleiri myndir en hver einasta mynd og hvert einasta verkefni kennir manni alltaf eitthvað nýtt, það koma upp vandamál sem maður þarf að leysa og maður lærir alltaf eitthvað af þeim.“ Að lokum er Árni spurður að því hvort hann sé kominn með hugmyndir að næstu mynd. „Já, ég er komin með ákveðna hugmynd og ég mæli með því að þið bíðið spennt eftir henni.“