Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 6. júní 2001 kl. 02:35

Ætlar að verða hótelstjóri

Lilja Karen steinþórsdóttir, 13 ára sá auglýsingu á töflu í skólanum þar sem stelpur voru hvattar til að skrifa ritgerð um draumafyrirtækið í tilefni af verkefninu Auður í krafti kvenna. Lilja sló til og viti menn, ritgerð hennar var valin ein af fjórum bestu.
Ritgerð Lilju Karenar fjallaði um rekstur hótels sem bar nafnið Hótel Atlas. Lilja valdi nafnið Atlas vegna þess að það höfðar til útlendinga jafnt sem Íslendinga. Á hótelinu gerði hún ráð fyrir veitingastöðum, líkamsræktarstöð, verslunum, sundlaug og öllum helstu nútíma þægindum. Hún ákvað að láta hótelið vera í Reykjavík, stærðarinnar vegna. Lilja Karen á ekki langt að sækja þessa hæfileika því faðir hennar er Steinþór Jónsson, hótelstjóri á Hótel Keflavík. Hún sagði það vissulega hafa hjálpað sér að hafa alist upp við fyrirtækjarekstur.
Á uppstigningardag fór Lilja Karen á námskeið í Reykjavík þar sem 28 stelpum var kennt hvernig ætti að stofna fyrirtæki og stjórna. „Við vorum 28 stelpur alls staðar að af landinu en flestar úr Reykjavík. Ég kynntist þeim öllum mjög vel og hef haldið sambandi við eina þeirra. Það var líka ágætt að losna við strákana í smá stund, þó þeir séu ekki svo slæmir“, segir Lilja sem var sú eina af Suðurnesjum sem tók þátt í ritgerðarsamkeppninni. Af þessum 28 stelpum sem sóttu námskeið voru síðan fjórar verðlaunaðar fyrir bestu ritgerðina, Lilja og önnur stelpa voru yngstar, 13 ára. „Mig langar að verða hótelstjóri eða lögfræðingur eða bæði þegar ég verð eldri. Ég ætla allavega að fara í stjórnunnarstöðu. Námskeiðið er mjög hvetjandi og sýnir manni að maður getur gert allt sem maður ætlar sér.“, segir Lilja Karen og hvetur aðrar stelpur til þess að taka þátt á næsta ári en það er síðasta árið sem boðið er upp á þessa samkeppni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024