Ætla að læra að segja „nei“
„Það sem er eftirminnilegast á þessu ári er flest allt tengt stjórnmálum. Flokksþing Framsóknarmanna í janúar var einstaklega vel heppnað og upphaf að nýju tímabili hjá flokknum,“ segir hin grindvíska Bryndís Gunnlaugsdóttir, sem m.a. er formaður Sambands ungra framsóknarmanna.
„Byltingin og mótmælin fyrir framan Alþingi sem leyddi til stjórnarslita eru ógleymanleg og sem og reiðin í þjóðinni sem birtist í mótmælunum. Verð að taka fram að mér finnst lögreglumennirnir sem stóðu vaktina þá vera menn ársins - þeir stóðu sig ótrúlega vel við erfiðar aðstæður.
Kosningabaráttan er mjög eftirminnileg í mínum huga þar sem ég var ofarlega á lista Framsóknar og naut þeirra forréttinda að ferðast um allt Suðurkjördæmið og heimsækja fólk og fyrirtæki og kynnast aðstæðum og málefnum fjölbreyttra hópa.
Einnig er þátttaka íslenska kvennalandsliðsins á EM í knattspyrnu mér ofarlega í huga þar sem þær stóðu sig einstaklega vel og sýndu þetta íslenska baráttuþrek og kraft sem Íslendingar eru svo stoltir yfir,“ segir Bryndís.
- Hvað með áramótaheit?
„Fyrir utan þessi venjulegu áramótaheit um að komast í form þá ætla ég að læra að segja nei á nýju ári. Ég á það til að taka að mér allt of mörg verkefni og á því lítinn tíma fyrir mig og mína. Ég stefni því að því að læra að segja nei og ná betra jafnvægi milli vinnu/stjórnmála og einkalífs. Vonandi mun þetta leiða til þess að ég hef meiri tíma með fjölskyldu og vinum“.