Æskuvinir halda myndlistarsýningu á Ljósanótt
Æskuvinirnir Stefán Jónsson og Gunnar Þór Jónsson verða með myndlistarsýningu í Fishershúsi, Hafnargötu 2, á Ljósanótt. Stefán hélt sína fyrstu myndlistarsýningu á Ljósanótt 2003 en sýningin í ár er frumraun Gunnars. „Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir Gunnar aðspurður hvort myndlistarsýningar verða árleg hefð héðan í frá.
Stefán og Gunnar eru æskuvinir en mæður þeirra voru einnig vinkonur. „Við erum búnir að vera vinir alla tíð, þó svo að við munum ekki mikið eftir fyrstu árunum, “ segir Gunnar. Þeir félagar voru saman í barnaskóla og gagnfræðaskóla en síðan skildu leiðir þegar Stefán fór að læra prentun og Gunnar kennarann.
Krotaði í allar skólabækurnar
Stefán hefur verið að mála og teikna frá því hann man eftir sér, hann var að eigin sögn í „tossabekknum“ í grunnskóla og eyddi mestum tíma í að teikna í skólabækurnar sínar. „Áhuginn hefur alltaf verið til staðar, myndlist var eina fagið sem ég nennti í skóla. Ég teiknaði bara út í eitt, skólabækurnar mínar voru allar út í teikningum og hljómsveitarnöfnum sem ég hafði teiknað,“ segir Stefán. Aðspurður hvers vegna hann ákvað að byrja að sýna verkin sín segir hann: „Það var einhver hátíð hérna í bænum sem tengdist list af einhverju leiti. Einhver í fótboltanum vissi að ég væri svolítið í því að teikna og ég endaði á því að sýna í gamla vallarhúsinu á Hringbrautinni. Ég sýndi þar slatta af myndum og svo þróaðist þetta og ég er búinn að vera annað hvert ár á Ljósanótt,“ segir Stefán.
Teiknar sér til slökunar og yndisauka
Gunnar hefur einnig alltaf verið mikið fyrir það að „krota og krassa,“ eins og hann kallar það. „Ég byrjaði svolítið á þessu á námsárunum í Kennaraskólanum, síðan flyt ég vestur á firði og var þar skólastjóri eftir að ég hafði starfað á Breiðuvík. Þar var ég að teikna svolítið mikið yfir veturinn í myrkrinu. Síðan liggur þetta niðri hjá mér mörg ár þegar ég fór að kenna og var skólastjóri í Heiðarskóla. Eftir að ég hætti að vinna í skólanum fór ég smátt og smátt að krota og krassa aftur. Þetta er mín leið til slökunar og yndisauka, svo hefur þetta bara þróast,“ segir Gunnar og bætir við: „Það var aldrei ætlun mín að fara að sýna það sem ég hef verið að gera. Ég hef aðallega bara verið að gefa vinum og ættingjum þessar myndir mínar. Eftir því sem á hefur liðið hef ég fengið smá hvatningu og mig minnir að Stebbi hafi stungið upp á því að halda sýningu saman á Ljósanótt. Það tók mig smá tíma að melta það en ég ákvað að slá til og hugsaði með mér að það yrði bara gaman.“
Gerðu sömu mynd fyrir tilviljun
Þeir Gunnar og Stefán draga báðir innblástur frá nærumhverfi sínu. Aðspurðir hvort verkin þeirra tengist með einum eða öðrum hætti segir Gunnar: „Þetta var ekki þannig að við hittumst og ræddum saman um það hvað við ætlum að sýna en þegar við skoðuðum verkin okkar nánar þá er sumt svipað - fyrir algjöra tilviljun. Það hefur hitt þannig á að við Stefán höfum fengið sömu hugmyndina. Ég teiknaði einmitt mynd af bát sem var hálfsokkinn í Njarðvíkurhöfn og Stebbi málaði held ég nákvæmlega sömu mynd“ og Stefán bætir við: „Ég málaði líka einhvern tíman mynd af litla húsinu sem er í Straumsvík og Gunni teiknaði líka mynd af því, án þess að vita að ég hafði gert það líka.“
Myndlistarsýning Gunnars og Stefáns verður opin milli klukkan 17:00 og 22:00 á fimmtudeginum og föstudeginum, frá klukkan 14:00 til 18:00 á laugardeginum og 13:00 til 16:00 á sunnudeginum. Þeir félagar bjóða alla velkomna á sýninguna og vonast til þess að sjá sem flesta.
Fjöldi listasýninga verða á Ljósanótt 2022, meðal annars í Fishershúsi, Duus Safnahúsum, Svarta Pakkhúsinu, Hótel Keflavík, í Grófinni og heimahúsum. Sjá nánar í dagskrá Ljósanætur í miðopnu blaðsins.