Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mánudagur 8. desember 2003 kl. 19:04

Aðventutónleikar Kvennakórs Suðurnesja og Karlakórs Keflavíkur

Kvennakór Suðurnesja og Karlakór Keflavíkur halda sameiginlega aðventutónleika í Ytri-Njarðvíkurkirkju fimmtudaginn 11. desember kl. 20.30 og í Grindavíkurkirkju sunnudaginn 14. desember kl. 20.00. Á efnisskránni eru mestmegnis klassísk jólalög. Kórarnir hafa báðir yljað Suðurnesjamönnum og fleirum um langt árabil með söng sínum. Kvennakór Suðurnesja varð 35 ára snemma á þessu ári, og þann 1. desember sl. voru liðin 50 ár frá því að Karlakór Keflavíkur var stofnaður, og hélt kórinn veglega tónleika af því tilefni ásamt Karlakórunum Fóstbræðrum og Þröstum. Einnig tók Karlakórinn þátt í karlakóramóti á Selfossi í haust. Kvennakór Suðurnesja hélt tónleika ásamt Lögreglukór Reykjavíkur í október, þannig að í nógu hefur verið að snúast hjá kórunum og mikil gróska í starfi þeirra. Í lok nóvember hlaut Karlakór Keflavíkur síðan Menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2003.
Þessir tveir kórar hafa nokkrum sinnum haldið sameiginlega tónleika, en nokkuð er um liðið síðan það var gert síðast, eða í desember 1996. Kórarnir hafa þó nokkrum sinnum komið fram við sömu tækifæri síðan.
Suðurnesjamenn og gestir eru eindregið hvattir til að mæta á þessa tónleika, þeir koma öllum í jólaskap.  Miðasala verður við innganginn og er miðaverð kr. 1000, en frítt fyrir 12 ára og yngri.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024