Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Aðventunni fagnað um helgina
Fimmtudagur 29. nóvember 2007 kl. 11:09

Aðventunni fagnað um helgina

Aðventan gengur í garð um helgina og verður henni fagnað hefðbundnum hætti hér á Suðurnesjum.  Á laugardaginn verður tendrað á jólatrénu á Tjarnargötutorgi í Reykjanesbæ en eins og áður kemur tréð frá norska vinabænum Kristiansand. Kveikt verður á jólatrénu kl. 18:00 og verður létt dagskrá í boði þar sem fram koma m.a. Blásarasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, barnakórar Holtaskóla og Heiðarskóla, grunnskólanemendur flytja atriði úr jólasöngleik og jólasveinarnir láta sjá sig.

 Í Sandgerði verður þéttskipuð fjölskyldudagskrá á laugardaginn sem hefst kl. 11 með jólatónleikum Tónlistarskóla Sandgerðis í Safnaðarheimilinu í Sandgerði. Strax eftir hádegið verður Listatorgið opnað með viðhöfn og samsýningu allra félaga í Listatorgi. Hljómsveitin Klassart og nemendur úr Tónlistarskóla Sandgerðis koma fram.
Kveikt verður á jólaljósunum við Grunnskólann í Sandgerði kl. 16 þar sem flutt verður jólahugvekja, Karlakórinn Víkingur tekur lagið og jólasveinn kemur í heimsókn.

Sunnudaginn 2. desember kl. 16:30 verður kveikt á jólatrénu í Vogum. Þar verða jólalögin sungin jafnvel dansað í kringum jólatréð. Þá er aldrei að vita nema jólasveinarnir líti við með glaðning fyrir yngstu kynslóðina.
Aðventumessa verður í Kálfatjarnarkirkju þennan sama dag og hefst hún kl. 14:00. Að henni lokinni er öllum Vogabúum velkomið að kíkja í kaffi í Félagsmiðstöðinni á vegum foreldrafélags leikskólans. Kaffið kostar 1.000 kr fyrir fullorðna, 300 kr fyrir krakka á aldrinum 6-14 ára og frítt fyrir leikskólabörnin.

Grindvíkingar kveikja ljósin á bæjarjólatrénu í á Landsbankatúninu kl 18:00 á sunnudag, ef veður leyfir, útlit er fyrir hæga norðanátt og frost. Jólasveinarnir ætla að koma í heimsókn og syngja og skemmta við fagran undirleik.  Bæjarstjórinn flytur ávarp og kl. 20 verða ljósin kveikt á jólatrénu í kirkjugarðinum. Sr. Elínborg flytur ávarp og kirkjukórinn flytur nokkur lög.

Í Garði verður kveikt á jólatrénu á horni Gerðavegar og Garðbrautar á laugardaginn kl: 17:00.

Þar verður flutt hugvekja, afmælisbarn dagsins kveikir jólaljósin á jólatrénu, söngsveitin Víkingar syngur jólalög líkt og Barnakór Garðs.  Jólasveinar stíga svo auðvitað á svið og syngja með börnunum.

Boðið er upp á heitt kakó og piparkökur og er hvatt til þess að sem flestir mæti og þá í jólaskapi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024