Áður heimilisfræðikennari, nú lestraramma
- Hólmfríður Guðmundsdóttir kenndi við Holtaskóla í 45 ár
Hólmfríður Guðmundsdóttir kenndi heimilisfræði við Holtaskóla í 45 ár og er nú ein af sex lestrarömmum við skólann. Þær koma í skólann einu sinni til tvisvar sinnum í viku og hjálpa nemendum yngri bekkja við lestur. „Mér þykir alltaf skemmtilegt að koma hingað í skólann og hitta fólkið. Mér hefur alltaf liðið mjög vel í þessu húsi og þykir afskaplega vænt um þessa stofunun sem Holtaskóli er,“ segir Hólmfríður sem lét af störfum sem heimilisfræðikennari fyrir tveimur árum, þá að verða 68 ára gömul. Hún býr í næsta nágrenni við skólann og segir því ekki mikið mál að kíkja þangað endrum og sinnum og sinna skyldum sínum sem lestraramma. „Ég hef líka alltaf skottast hingað niður eftir þegar verið var að fagna sigrum í Skólahreysti. Svo er ég líka með starfsmannahópnum í Lífshlaupinu og skrái þá alla hreyfingu samviskusamlega niður. Það er skemmtilegt og heilsuhvetjandi umhverfi hérna.“
Nemendur hafa tekið lestrarömmunum vel og þykir lesturinn með þeim hinn sjálfsagðasti hlutur. Eftir lesturinn kvitta ömmurnar fyrir og nemandinn fær að velja sér límmiða. „Við lesum í rólegheitum og stoppum við erfið orð til að tryggja að þau skilji merkingu þeirra. Við tyllum okkur nálægt stofum nemenda svo þau eru snögg að koma sér til okkar og líka að fara aftur í tíma. Þetta léttir eitthvað á kennurum enda þarf töluverða þjálfun til að ná góðum tökum á lestrinum.“
Kenndi 44 tíma á viku
Hólmfríður hóf störf við Holtaskóla árið 1970 og hafði þá lokið rúmlega þriggja ára yfirgripsmiklu námi heimilisfræðikennara frá Hússtjórnarkennaraskóla Íslands. Í skólanum voru allir nemendurnir í sérstökum skólabúningum, bláum kjólum með hvítar svuntur. Þá voru þær með kappa á hausnum og teskeið festa í svuntuna. „Við lærðum hin ýmsu fög. Til dæmis dvöldum við á Laugarvatni eitt sumarið að læra garðyrkju. Þar héldum við okkar eiginn matjurtagarð og fengum til okkar nokkrar 12 til 14 ára stúlkur í æfingakennslu. Hópurinn var kallaður Yngismeyjar. Þær komu alls staðar að af landinu og voru hjá okkur í mánuð.“ Svo skemmtilega vildi til að ein af Yngismeyjunum, Ástríður Lilja Guðjónsdóttir, flutti síðar til Keflavíkur og kenndi heimilisfræði með Hólmfríði í Holtaskóla.
Hólmfríður ólst upp í Eyjafjarðarsveit en flutti til Keflavíkur að loknu námi því eiginmaður hennar, Jón Þorkels Eggertsson, er héðan. Þau eiga þrjá syni. Eggert, sá elsti, fæddist árið 1969, rétt áður en Hólmfríður hóf störf við Holtaskóla. Fyrstu árin kenndi hún 44 kennslutíma á viku og þá var líka kennt á laugardögum. „Ég eignaðist ekki annað barnið fyrr en árið 1979, enda var ég alltaf að vinna,“ segir Hólmfríður í léttum dúr en þá fæddist Ingimundur. Þremur árum síðar eignaðist hún svo þriðja soninn, Aðalgeir. Þá voru tímarnir aðrir og fæðingarorlofið aðeins þrír mánuðir.
Vann með heimilisfræðikennara í Sandgerði
Þegar Hólmfríður hóf störf sem heimilisfræðikennari voru hún og Helga Karlsdóttir einu lærðu heimilisfræðikennararnir á Suðurnesjum. Helga kenndi stærstan hluta starfsævinnar við Grunnskólann í Sandgerði. „Við Helga unnum mikið saman og gerðum námsáætlanir í sameiningu og að það var mjög gott að eiga þannig samstarfskonu og vinkonu að þó svo að hún hafi kennt við annan skóla.“
Hólmfríður kenndi við Holtaskóla í 45 ár og því eru nemendurnir orðnir margir. Þessum kenndi hún í kringum síðustu aldamót.
Í kringum 1990 var eldhúsið í Holtaskóla tekið í gegn og því skipt í tvennt svo aðstaða skapaðist til að ráða annan kennara til viðbótar við Hólmfríði. „Þá varð starfið mun skemmtilegra, að hafa einhvern með sér og vera ekki einyrki lengur.“ Í gegnum áratugina hefur starf heimilisfræðikennara Holtaskóla breyst töluvert. Til að mynda hefur heimilisfræðitímum fyrir hvern nemanda fækkað. Þá hafa aðbúnaður og námsefni einnig breyst. Til dæmis er nemendum ekki lengur kennt að strauja og pressa fatnað og segir Hólmfríður minni tíma til að kenna borðsiði. Mesta breytingin varð þó þegar Holtaskóla var breytt úr gagnfræðaskóla fyrir öll Suðurnesin í hverfisskóla fyrir nemendur í 1. til 10. bekk í Keflavík. Hólmfríður segir breytinguna hafa verið það mikla að það hafi verið líkt og að skipta um vinnustað.
Merkjanlegar framfarar eftir hjálp frá lestrarömmum
Lestrarömmurnar í Holtaskóla mæta einu sinni til tvisvar sinnum í viku og hlusta á nokkra nemendur lesa í hvert sinn. Nemendur eiga því rólega stund einir með ömmunum og lesa í tíu til fimmtán mínútur. Það eru einkum þrír hópar í yngstu bekkjum sem fá hjálp frá lestrarömmunum; nemendur af erlendum uppruna, nemendur með lestrarvanda og nemendur sem búa við þannig heimilisaðstæður að ekki er hægt að sinna lestrarþjálfun á fullnægjandi hátt. Guðbjörg Rut Þórisdóttir, deildarstjóri stoðþjónustu og lestrarfræðingur, skipuleggur starfið. Hún segir ánægjulegt að hafa fólk á öllum aldri í Holtaskóla og að hjálpin frá lestrarömmunum skipti verulegu máli. Nemendur hafa tekið miklum framförum undir þeirra leiðsögn. Verkefnið hefur verið í gangi í Holtaskóla í sex ár og hafa nokkrar ömmurnar tekið þátt frá upphafi. Sams konar lestrarömmu- eða lestrarvinaverkefni eru einnig starfrækt í öðrum skólum, bæði hér á Suðurnesjum og víðar um landið.
Hólmfríður lauk rúmlega þriggja ára námi frá hússtjórnarkennaraskólanum. Á myndinni er hún í einkennisbúningi nemenda.