Aðstoðar ferðamenn við áfengiskaup um helgina
Verslunarmannahelgi Suðurnesjamanna
Brynjar Þór Magnússon vinnur í Fríhöfninni og mun eyða bróðurpartinum af helginni í að aðstoða ferðamenn við áfengiskaup.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og hvert á að fara?
Ég ætla að eyða bróðurpartinum af helginni í vinnu minni, eða minnsta kosti 36 klukkutímum. Þar ætla ég og okkar bestu menn meðal annars að rifja upp áfengistollinn með ferðamönnum ásamt því að benda eldri borgurum á hvar ginið sé geymt.
Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmannahelgi og finnst þér eitthvað vera ómissandi um þessa helgi?
Það sem mér þykir mest einkenna þessa helgi eru líflegir dagar yfir helgina sjálfa, svo fylgir lengsti og erfiðasti mánudagur ársins þar á eftir. Held að það eina sem er ómissandi þessa helgi er góður félagsskapur, ef maður er með góðan mannskap í kringum sig þá er flest annað aukaatriði.
Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér?
Líklegast er sú verslunarmannahelgi sem ég mun seint gleyma æfingaferð til Spánar með öðrum flokki í fótbolta. Það er hægt að segja að það hafi lítið sem ekkert gerst þar. Ég mæli annars hiklaust með fótboltaferðum yfir þessa helgi, því á meðan við Keflavíkurdrengirnir vorum léttir á okkur með bolta við tærnar á ströndinni þá voru leikmenn annarra liða væntanlega að detta niður brekkuna í Eyjum.