„Aðstandendur oft veikastir“
Margir leita til forvarnafélagsins Lundar og ástæður eru ýmsar.
„Fólk hringir hingað af ýmsum ástæðum, ekki bara vegna neyslu. Það er jafnvel ofbeldi á heimili eða óregla á foreldrum. Ákvarðanatakan um að hringja er erfið hjá fólki, hvort sem um er að ræða aðstandanda eða einhvern í neyslu,“ segir Erlingur Jónsson, forstöðumaður forvarnafélagsins Lundar. Sá sem er í neyslu finnist hann geta stjórnað og aðstandanda finnist hann geta stjórnað líka. „Meðvirkillinn er bara stjórnlaus og oft miklu veikari. Maður er alveg búinn að sjá ferilinn héðan og upp á geðdeild, oftar en einu sinni, þegar hefði verið hægt að leita hjálpar eins og boðið er upp á hér.“
Búinn með allt sitt
Spurður um tilurð Lundar segir Erlingur að hann hafi byrjað árið 2006 að skrifa vikulegar greinar í Víkurfréttir. Ári seinna hafi starfsemin sjálf byrjað. „Ég ætlaði aldrei að standa í þessu sjálfur heldur setja þetta í hendurnar á bæjarfélögunum en þeim leist svo vel á þetta að þeir ýttu mér út í það“. Hugsjónastarf hans sé nánast unnið í sjálfboðavinnu en stærsti styrktaraðilinn, Pokasjóður, hafi breytt styrkveitingum og Erlingur segir reksturinn hafa verið afar erfiðan síðan. „Ég er búinn með allt mitt í þetta. Bæjarfélögin hafa stutt mig eitthvað og kannski Reykjanesbær mest með þessu húsnæði hér og kostnaðar vegna þjónustunnar við SÁÁ. Annað hefur komið svona héðan og þaðan. Stundum fer loftið úr manni.“
Óttinn að þekkjast
Erlingur segir marga skjólstæðinga sína í gegnum tíðina hafa sett fyrir sig að skrá sig í viðtöl á skrifstofu Reykjanesbæjar af ótta við að þurfa að gefa upp nafn og kennitölu. Þó þurfi einungis að gefa upp fornafn og síma. „Fólk hringir yfirleitt beint í mig þegar það er komið með nóg og á erfitt með að takast á við málin. Samt reynir það áfram að nota sínar aðferðir innan veggja heimilisins og fer sjaldan eftir ráðum sem ég gef. Maður þekkir þetta reyndar alveg sjálfur. Ég var miklu veikari sem aðstandandi en alkóhólisti.“ Þeir sem leita til Erlings eru bæði sjálfir í vandræðum og líka aðstandendur.
Vilja ekki hitta á dílerinn
Fundir og ráðgjafaviðtöl hjá Lundi eru á mánudögum, fyrir alla aldurshópa. Einnig eru stuðningshópar, sem eru t.d. leiðir fyrir þá sem eru ekki tilbúnir að fara á AA fundi, af ýmsum ástæðum. „Þeir þora kannski ekki að tala eða láta sjá sig. Þeir gætu hitt á dílerinn sinn. Samfélagið er svo lítið,“ segir Erlingur. Einnig segir hann neysluna hafa aukist og breyst. Kannabisreykingar þyki algjört himnaríki og heilsusamlegar meðal sumra unglinga. Þeir séu mjög sannfærandi við aðra um að það sé þannig. „Rosalega margir lesa ýmislegt misgáfulegt um kannabis á netinu og sannfæra foreldra með slíkum rökum. Betra væri fyrir foreldra að kynna sér þetta annars staðar. Þótt kannabis drepi ekki strax þá eru svo margir sem byrja á því og þess vegna er það svo hættulegt.“
Annað foreldrið í afneitun
Foreldrafræðsla í Lundi er undir handleiðslu ráðgjafa SÁÁ fyrsta mánudag í mánuði og einnig eru 5-6 mismunandi fyrirlestrar. Þeir eru t.d. um meðvirkni einstaklingsins, meðvirkni í fjölskyldunni, sjálfsvirðingu, fíkniefni, meðferð og meðferðarheimilin. Að meðaltali koma um 20 manns og þiggja einhvers konar aðstoð á hverjum mánudegi. „Fólk virðist eiga erfitt með að festa sig í sessi hér. Til dæmis kemur alltaf annað foreldrið. Hitt er heima að skammast sín en vill bara fá að fylgjast með úr fjarlægð,“ segir Erlingur og bætir við að foreldrar taki á svona málum á misjafnan hátt. Yfirleitt komi konur en þó einn og einn karl. „Konur eru opnari fyrir því að tala um þessa hluti. Þetta er erfitt og hefur alltaf áhrif á sambúð og sambönd á heimilum þegar annar aðilinn er að byggja sig upp en hinn ekki.“
Var fastur í meðvirkni
Besta leiðin til að hjálpa börnum sínum segir Erlingur vera þegar foreldrar fræðast um efnin, ástandið og meðferðina. „Annars eru þau alltaf að dæma. Þau verða að takast á við sig sjálf og byggja sig upp til þess að taka öðruvísi á hlutunum gagnvart þeim sem eru í neyslu, hvort sem það eru börn, maki eða einhver annar.“ Meðvirkur aðstandandi aðstoði alltaf hinn við neysluna áfram á einhvern hátt en telji sig gera það besta fyrir barnið sitt hverju sinni. „Sjálfur var ég í 10 ár í afneitun sem foreldri. Ég vissi ekki almennilega hvað var í gangi og komst að því að ég var fastur og gat ekkert gert ef ég héldi áfram að vera svona meðvirkur með syni mínum.“ Erlingur leitaði sér aðstoðar og svo kom að erfiðasta skrefinu.
Setja mörk og standa við þau
„Ég hringdi í strákinn minn og bað hann um að tala við mig. Óskaði eftir því hjá honum að hann léti mig í fríði. Hann bæði mig ekki um peninga, sígarettur eða að skutla sér. Ef hann ætlaði að vera í þessum heimi yrði hann að vera þar án mín. Ég yrði að hugsa um sjálfan mig því hann hefti minn bata,“ segir Erlingur og bætir við að samtalið hafi verið á rólegum nótum og nóg til þess að sonur hans hætti í neyslu í tvö ár. Í samskiptum við svona veika einstaklinga segir Erlingur að setja þurfi mörk og standa við þau. Mörkin þurfi ekki að vera stór og skelfileg. „Við breytum ekki öðrum en getum haft áhrif á aðra með breyttu viðhorfi. Ef við setjum okkur í fyrsta sæti til þess að líða vel þá líður fólkinu vel í kringum okkur. Þannig höfum við jákvæð áhrif á líðan annarra. Það þarf að losna við skömmina og viðurkenna að það sé einhver veikur í fjölskyldunni eða maður sjálfur.“
Eigið barn slæmur félagsskapur
Erlingur segir margt ungt fólk undir pressu frá foreldrum að standa sig. Þessir krakkar séu í jafn mikilli hættu að fara í neyslu og önnur, jafnvel í meiri hættu. „Það þarf svo lítið, bara fikta einu sinni. Foreldri verður að vera vinur barna, styðja þau og skilja. Ekki bara minna á neikvæðu hlutina. Það er algjört eitur.“ Einnig verði foreldrar að fylgjast með mögulegum einkennum eins og sífellt nýjum félagsskap. Einnig þegar barnið er sjálft orðið slæmur félagsskapur í augum annarra foreldra og farið að hafa slæm áhrif á aðra. „Oft er erfitt að tækla þessa hluti. Nýir vinir, ný tónlist, svefnvenjur, mataræði og fatasmekkur breytast. „Þegar og ef þú missir barnið þitt í neyslu, þá fara nokkur ár úr lífi þínu. Það er bara þannig. Fólk kemur hingað og heyrir þetta á fyrirlestrum eða á fundum en lokar á það samt; brotnar niður, fær taugaáfall og hleypur jafnvel út. Ég hef hlaupið út á eftir fólki til að fá það inn aftur þegar það gerir sér grein fyrir stöðunni, segir Erlingur.
„Gott að fá þetta símtal“
Hann hefur þó einnig séð marga sigra í starfi sínu og það haldi sér gangandi. „Ég hef alltaf haft áhuga á að hjálpa öðrum. Það hefur byggt mig upp í leiðinni. Þetta er besta verkfæri sem til er til sjálfshjálpar. Að taka leiðsögn sjálfur og fara eftir henni.“ Erlingur hefur einnig flutt fyrirlestra í skólum á Suðurnesjum. „Eftir síðasta fyrirlestur í FS hafði samband við mig vinahópur sem vildi hjálpa vini sínum. Ég gaf þeim ráð. Svo hringdu þeir fyrir skömmu og sögðust hafa farið eftir ráðum mínum og hann hefði valið þá fram yfir nýja lífsmynstrið. Það var gott að fá þetta símtal,“ segir Erlingur, sem alltaf er með símann á sér. „Um leið og þú hefur einhvern grun, hringdu eitthvert og fáðu aðstoð. Foreldrar fara með börnin frekar til sálfræðinga en að fara með þau hingað. Svo eru börnin kannski í neyslu allan tímann og tímarnir hjá sálfræðingunum fóru til einskis. Það þarf að byrja á að losna við skömmina og taka upp símann. Það er svo margt í boði,“ segir Erlingur að lokum.
VF/Olga Björt