Að vita af ykkur gefur okkur kraft til að berjast
Pétur Pétursson þakkar fyrir stuðninginn
Fjöldi manns kom saman sl. föstudag í íþróttahúsinu við Sunnubraut til þess að styðja við bakið á Pétri Péturssyni og fjölskyldu hans. Pétur hefur um nokkurt skeið glímt við krabbamein en vinir, vandamenn, samstarfsfólk og velunnarar úr körfuboltasamfélaginu mættu til þess að sýna stuðning sinn í verki á föstudag. Pétur er að vonum afar þakklátur og sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.
Kæru vinir
Fyrir mína hönd og fjölskyldu minnar allrar þakka ég ykkur öllum af heilum hug þann stuðning, kveðjur, styrk og hlý orð sem okkur hafa borist undanfarnar vikur. Upplifunin á föstudagskvöldið var einstök og orkan sem þar var að finna frá öllum þeim fjölda fólks sem mætti, var ótrúleg. Ykkur, sem gáfuð vinnu ykkar og tíma til að gera kvöldið að veruleika, þakka ég frá innstu hjartarótum. Að finna fyrir slíkum stuðningi og nærveru frá ykkur er ómetanlegt og á þeim mælikvarða að okkur setur hljóð.
Baráttan heldur áfram. Að vita af ykkur gefur okkur kraft til að berjast.. og sigra.
Ástarkveðjur,
Pétur Pétursson og fjölskylda