Að vera hluti af samfélagi
Ég, eins og allir Íslendingar, er harmi slegin yfir atburðum síðustu daga sem hafa gert okkur öll aðeins óöruggari í okkar þjóðfélagi. Með stuttu millibili hafa tvær ungar stúlkur verið hrifnar burt í blóma lífsins. Önnur fórnarlamb hörmulegs slyss á Grindavíkurvegi, hin fólskulegrar árásar. Árásar sem má álykta að flest okkur höfum aðeins lesið um í glæpasögum. Eftir stöndum við hugsi um það þjóðfélag sem við búum í og því óöryggi sem þessar aðstæður skapa okkur öllum. En fyrst og fremst er hugur okkar allra með fjölskyldum og vinum þessara ungu stúlkna, allt er breytt og ekkert verður framar eins.
Ég hef velt því fyrir mér í ljósi þessara atburða hversu mikilvægt það er að vera hluti af samfélagi. Ekki eingöngu að tilheyra hópi heldur að upplifa samkennd og samstöðu heillar þjóðar þegar eitthvað heggur í okkur. Samkvæmt skilgreiningu á orðinu samfélag þá vísar það venjulega til hóps fólks sem á með sér innbyrðis samskipti sem heild. Samfélag fólks nær yfir allt frá minnstu hópum, eins og fjölskyldu, að stærstu einingum eins og alheimssamfélaginu.
Ég hef fengið að kynnast því hversu mikill kraftur felst í því að tilheyra samfélagi, ekki bara einhverju samfélagi, heldur samfélagi sem lætur sig hlutina varða. Samfélagið mitt, stóra fjölskyldan mín og fólkið mitt í Reykjanesbæ, stóð eins og klettur á bak við fjölskyldu mína þegar við gengum í gegnum erfiðan missi undanfarin ár. Samkenndin og stuðningurinn sem ég varð vitni að reyndist okkur fjölskyldunni ómetanlegur.
Ég upplifði einstakan kærleika og tilfinningu sem ekki er hægt að lýsa með orðum. Það fékk mig til þess að staldra við og hugsa: hvernig get ég gefið til baka? Þessi upplifun breytti mér. Breytti mínu viðhorfi og veitti mér aukinn lærdóm og innri sýn. Gamla tuggan sem pabbi sagði við mig reglulega frá unga aldri; “kærleikurinn er það eina sem skiptir máli Inga mín”, varð ljóslifandi og allt breyttist og ekkert varð framar eins. Þetta varð leiðarljósið mitt sem gaf mér visku og andlega sýn til að gefa til baka.