Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Miðvikudagur 29. mars 2000 kl. 14:58

Að vekja, kenna og virkja

Fermingarstörfin eru nú til umræðu innan kirkjunnar. Námskrá fermingarstarfanna kom út á vegum Fræðsludeildar kirkjunnar á síðasta ári og markmið þeirra er að vekja, kenna og virkja. Þegar við tölum um að vekja er átt við að vekja til vitundar um trúarlífið, að lífið er gjöf og að við höfum ekki skapað það sjálf. Vekja þakklæti til Guðs, gjafara allra góðra hluta, sem er ávallt með í för hvert sem leið okkar liggur. Við erum aldrei ein á ferð. Það er yfir okkur vakað. Sumir hefðu eflaust viljað skipta á sögninni að kenna og setja sögnina að skemmta í staðinn? Þannig að markmið fermingarstarfanna væri að vekja, skemmta og virkja, en þannig er það nú ekki, þótt fermingarstörfin geti vissulega verið skemmtileg, eins og dæmi sanna. Við spyrjum oft í upphafi fermingarundirbúnings hverjar væntingar fermingarbörnin hafi varðandi fermingarundirbúninginn. Í eitt skiptið var þeirri spurningu svarað á þá leið hvort við prestarnir yrðum skemmtilegir! Að kenna merkir einfaldlega að fræða um grundvallaratriði kristinnar trúar. Við finnum ekki fyrirmynd eða nákvæma hliðstæðu fermingarinnar í Nýja testamentinu, þó segir Jesús lærisveinum sínum í skírnarskipuninni, „að kenna mönnum að halda það sem hann hefur boðið“ og þau ummæli hans hafa verið tekin sem bein fyrirmæli um fermingu og fermingarundirbúning. Að kenna fermingarbörnum að rækja bænalífið er afar mikilvægt og eitt besta veganesti fyrir þau út í lífið. Við höfum heyrt talað um að virkja fossinn eða jarðhitann í Svartsengi, en hér er átt við að virkja krafta og áhuga fermingarbarna til þátttöku og starfa innan kirkju og í þjónustuverkefnum hennar. Það þarf að kalla þau til ábyrgðar gagnvart Guði, náunganum og sköpuninni eða lífinu almennt. Kirkjan á að spyrja sig að því við aldarhvörf hvernig hún ætlar að leiða ungu kynslóðina inn í nýja öld? Það þarf að efla trúarlegan, siðferðilegan og að sjálfsögðu vitsmunalegan þroska unglinganna og stuðla þannig að alhliða mótun þeirra, án þess að um einhliða áherslu á kennisetningar sé að ræða. Alhliða persónumótun hefur illu heilli verið vanrækt. Það þarf að hjálpa unglingunum að finna sig í lífinu og leyfa þeim að bera fram þær spurningar sem brenna á þeim við þær aðstæður sem þeir eru að takast á við. Við fáum hreinskiptin svör frá þeim um að það sé erfitt að vera unglingur í dag. Síðast en ekki síst þarf að kenna þeim að velja og hafna. En fermingarundirbúningur er ekki bara kröfur. Æskufólk á sinn málsvara í Jesú. Hann er þeirra fyrirmynd og hjá honum er fyrirgefningu að finna. Ungt fólk þráir einfaldleika og sannleika, sem er fólginn í fólki og lifuðu lífi og það er gaman að geta þess að hópar æskufólks sýna leiksýningar í tengslum við kristnihátíðarhöldin um þessar mundir. Þau leggja sjálf til mála. Fermingarbörn þurfa ávallt að njóta umhyggju safnaðarins, þess safnaðar sem þau urðu hluti af við skírnina. Þar eiga þau athvarf alla tíð. Það er þörf á sjálfsgagnrýni kirkjunnar þegar fermingarstörfin eru tekin til endurskoðunar, þannig að leitað sé lausna á vandamálum. Fermingarundirbúningurinn gefur kirkjunni einstakt tækifæri til þess að ná til æskunnar í dag og það er hlutverk hennar að hjálpa æskufólki að lifa kristilegu lífi. Það gerist í söfnuðinum, við guðsþjónustur, með uppfræðslu, viðræðum og í æskulýðsstarfi, sem verður aukið verulega í Keflavíkursókn á komandi vetri. Það er brýnt að hlú að líkama, sál og anda æskufólks á Íslandi, því það er framtíð þjóðarinnar. Markmið fermingarstarfanna er að glæða þannig trúar- og siðgæðisvitund fermingarbarnanna og hjálpa þeim að lifa sínu trúarlífi í því frjálsa samfélagi sem kirkjan á að vera, án þess að um sé að ræða nokkra þvingun. Einnig er brýnt að hjálpa þeim að feta sig áfram í lífinu, kenna þeim að taka bæði meðlæti og mótlæti, sem er ein mikilvægasta lexía lífsins og nýta hæfileika sína og þau tækifæri sem bjóðast þeim sjálfum til blessunar og Guði til dýrðar. Ég vil að lokum óska öllum fermingarbörnum sem ganga til fermingar árið 2000 innilega til hamingju. Séra Ólafur Oddur Jónsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024