Að frjálsar strandveiðar verði raunverulega frjálsar
Magnús Guðbergsson strandveiðisjómaður hefur verið sjómaður allt sitt líf
„Er sanngjarnt að einstaklingur sem fæðist á morgun, eigi kvóta en sá sem liggur við hliðina á kvótaprinsinum á fæðingardeildinni og er ekki fæddur inn í rétta fjölskyldu, eigi engan möguleika,“ spyr Magnús Guðbergsson, strandveiðisjómaður. Magnús hefur verið sjómaður allt sitt líf, var byrjaður í útgerð fimmtán ára gamall og er eldri en tvæ vetur þegar kemur að sjómennsku. Hann eins og líklega allir strandveiðisjómenn, hefur mjög mikið út á strandveiðikerfið að setja og sömuleiðis hefur Magnús sínar skoðanir á stóra kvótakerfinu. Hann vill sjá uppstokkun í því kerfi og bendir á að ef ekki verði breytingar hvað varðar veiðar stærri skipa við Íslandsstrendur, muni sjávarútvegurinn sigla í strand.
Magnús var nýlega kominn í land eftir vel heppnaðan róður þegar blaðamann bar að garði.
„Ég tók skammtinn svokallaða, sem er 774 kíló af óslægðum þorski, eða sem nemur 650 kílóum af slægðu. Við megum veiða eins mikið af ufsa og við viljum en fáum bara 80% af því aflaverðmæti, restin fer til ríkisins. Ég er búinn að róa þá daga sem hafa verið í boði síðan strandveiðitímabilið hófst 2. maí en við megum róa mánudaga til fimmtudags en þó ekki þegar lögbundinn frídagur er, t.d. má ég ekki róa á morgun, fimmtudag því þá er uppstigningardagur. Ég er búinn að taka skammtinn alla daga og hef varla þurft að fara út fyrir höfnina, í morgun fór ég út um fimmleytið og var strax kominn í góða veiði og þannig hefur það verið alla dagana, ég hef alltaf tekið skammtinn og rúmlega það með ufsanum. Það er óvenjulegt að það sé svo mikill fiskur hér innan bugtar, þannig var það ekki hér áður fyrr, að hægt væri að veiða á handfæri innan Garðskaga, forfeður mínir töluðu um að erfitt væri að gera út á handfæri hér en staðan er önnur í dag. Sjórinn er fullur af þorski sem segir mér að það má leyfa miklu meiri þorskveiði en leyfð er í dag og þá er ég að meina að við þessir kvótalausu ættum að fá að veiða meira. Ég held að það sé ekki til einn einasti strandveiðimaður sem er sáttur við kerfið eins og það er uppbyggt í dag. Þetta kerfi var sett á árið 2009 og hugsunin var vissulega göfug, þ.e. að gefa fleirum kost á að sækja fiskimiðin en eins og við vitum hefur kvótinn safnast á fáar hendur. Það var talað um kerfið sem frjálsar veiðar en því fer víðs fjarri að um frjálsar veiðar sé að ræða, í raun er okkur settar nokkrar skorður. Fyrir það fyrsta er okkur skammtaðir 48 dagar yfir fjögurra mánaða tímabil, frá maí til loka ágústmánaðar. Hins vegar náum við aldrei að nýta alla þessa daga því tíu þúsund tonna kvótinn er venjulega búinn í júlí. Við megum róa fjóra daga í viku, tólf daga í mánuði. Ekkert tillit er tekið til aðstæðna, segjum sem svo að það sé bræla fyrri part vikunnar og ekki hægt að róa, svo er blíða seinni partinn en þá megum við ekki róa. Þetta býður hættunni svo sannarlega heim því sjómenn freistast þá til að fara út í aðstæðum sem þeir annars myndu ekki gera, bara til að geta nýtt viðkomandi dag. Okkur eru settar skorður hvað varðar magn, við megum ekki fara yfir 774 kíló af óslægðu, við megum bara vera fjórtán klukkustundir í hverjum róðri og við megum bara vera með fjórar rúllur. Erfitt er að finna haldbær rök fyrir öllum þessum skorðum og er greinilegt að þessar reglur eru ákveðnar af jakkafataklæddum mönnum í Reykjavík sem hafa ekki hundsvit á sjómennsku. Eins og ég segi, hugsunin á sínum tíma var falleg en það er sorglegt að ekki sé haft samráð við okkur sjómennina sem erum að stunda strandveiðina. Því miður veldur þetta líka núningi á milli okkar því staða okkar er mjög misjöfn eftir því hvar á landinu við erum. Ég öfunda ekki strandveiðisjómenn á Norðausturlandi sem þurfa venjulega að bíða fram í júlí eftir að vænn þorskur syndi inn á þeirra mið, þá er tíu þúsund tonna kvótinn búinn og frekari strandveiði ekki leyfð. Af hverju þarf að svæðisskipta þessu? Af hverju má ekki strandveiðisjómaðurinn sem býr á Raufarhöfn sigla með bátinn sinn til Keflavíkur og gera út þaðan,“ spyr Magnús.
Svikin loforð Vinstri grænna
Það voru Vinstri grænir sem komu strandveiðikerfinu á árið 2009 og fyrir síðustu kosningar lofuðu þeir gulli og grænum skógum að sögn Magnúsar.
„Það átti heldur betur að bæta í strandveiðikerfið en það voru bara orðin tóm, bara hjóm eins og annað sem þessi flokkur lofar. Ef ég væri einráður myndi ég breyta kerfinu þannig að um frjálsar veiðar væri að ræða. Það væri ekki möguleiki að strandveiðiflotinn myndi valda ofveiði. Það væri auðveldlega hægt að auka kvótann í tuttugu þúsund tonn og allar þessar skorður ættu að hverfa. Þessi bátafloti er ekki gerður fyrir íslenskar vetraraðstæður og það væri auðveldlega hægt að láta tímabilið vara í átta mánuði. Að auka strandveiðikvótann myndi auka tekjur þjóðarbúsins, mér sýnist ekki veita af því. Þetta eru umhverfisvænustu veiðar sem um getur, við missum ekki króka í sama magni og stóru línuskipin og allt mælir í raun með því að auknar heimildir yrðu settar til handa strandveiðisjómönnum. Þegar kerfið var sett á á sínum tíma höfðu sumir áhyggjur af meðferðinni á aflanum, ég veit að ég persónulega hugsa mjög vel um aflann. Ég set hann í lokuð kör sem eru einangruð svo sólin skín aldrei á hann, ég er með krapa og ísa vel líka og leyfi mér að fullyrða að ég kem með fyrsta flokks hráefni að landi. Ég trúi ekki öðru en allir strandveiðisjómenn hugsi líka vel um aflann, við værum aldeilis að skjóta okkur í fótinn ef við gerðum það ekki.
Ef það fólk sem tekur ákvarðanir um svona hluti eins og strandveiðikerfið myndi aðeins hugleiða að kerfið snertir líf fjölda fólks úti á landsbyggðinni, á stöðum þar sem kannski er búið að kaupa allan kvótann í burtu og þetta fólk er að reyna að halda úti byggð á viðkomandi stað, af hverju er ekki eitthvað gert til að hjálpa þessu fólki? Viljum við frekar fá alla suður á malbikið og láta húsnæðisverðið og -leiguna, rjúka upp úr þakinu? Af hverju ekki frekar að stuðla að svona úrræðum eins og strandveiðikerfið gæti svo auðveldlega gert, til að ýta undir byggð úti á landi?
Til að klára þennan hluta viðtalsins um strandveiðina, mér sýnist ég komast á sjóinn á mánudaginn en samt er spáin ekki góð. Ég mátti fara í dag og fór þrátt fyrir skítabrælu út frá Garðskaga en á morgun spáir logni en þá má ég ekki fara á sjó því það er rauður dagur, samt veit ég að allar fiskvinnslur myndu vilja fá aflann og vinna hann degi seinna, sem einmitt er líka banndagur hjá okkur því þá er kominn föstudagur. Ég gæti haldið langa ræðu um annmarkana á þessu strandveiðikerfi, sem gæti verið svo miklu, miklu betra fyrir alla og ekki síst þjóðarbúið.“
Kvótakerfið gallað
Magnús hefur líka sína skoðun á kvótakerfinu í heild sinni.
„Ef okkur smábátasjómönnunum og sérstaklega okkur sem sinnum strandveiðinni væri gefinn betri kostur á að stunda okkar sjómennsku, myndi ég kannski ekkert hafa út á stóra kerfið að setja. En hlýtur ekki að vera eitthvað skrýtið við það að einstaklingur sem fæðist á morgun, eigi aðganginn að auðlindinni? Sá sem liggur við hliðina á kvótaprinsinum á fæðingardeildinni og er ekki fæddur inn í rétta fjölskyldu, á hins vegar engan möguleika á að hasla sér völl í útgerð. Hvernig gat þetta gerst, að fáir útvaldir eigi kvótann en eiga hann samt ekki því kvótinn er eign þjóðarinnar? Það var auðvitað rétt útspil á sínum tíma að setja kvótakerfið á því við vorum farin að ganga á stofnana en þvílík mistök sem gerð voru þegar framsalið á kvótanum var leyft nokkrum árum síðar. Að einhver geti veðsett eign þjóðarinnar og hagnast um tugi eða jafnvel hundruð milljóna án þess að gera nokkuð nema leigja kvótann frá sér, ætlar virkilega einhver að segja mér að þetta sé sanngjarnt? Útgerðarmenn borga sem nemur 25 þúsund krónum af hverju veiddu tonni, það gerir 25 krónur á kílóið. Ég hafði samband við matvælaráðuneytið í fyrra en sjávarútvegurinn heyrir undir það ráðuneyti, og bauðst til að borga 70 þúsund krónur í leigu fyrir tonnið, hugsaðu þér að þarna var ég, einyrki frá Reykjanesbæ, tilbúinn að greiða hátt í þrefalt það verð sem útgerðin skilar til þjóðarbúsins. Eðlilega gat ráðuneytið ekki orðið við þessari beiðni minni og ég vissi það auðvitað vel, ég vildi bara prófa að reyna hrista aðeins upp í kerfinu.
Þegar kvótakerfið var sett á á sínum tíma, ályktaði mannréttindanefnd Evrópudómstólsins um að það mætti ekki setja kvótakerfið á ef það myndi hefta aðgang hins almenna borgara að því, sem gæti þá nýtt kerfið sér og sinni fjölskyldu til framfærslu,“ segir Magnús.
Kvótanum skilað til baka á tuttugu árum
Blaðamaður reyndi að koma með leik á móti og benti Magnúsi á að 90% kvótans hefur skipt um hendur, þ.e. að einn aðili hefur keypt kvótann af öðrum. Magnús átti greinilega von á þessum mótleik.
„Bankarnir áttu stóran þátt í að framsalið var leyft því þeir þurftu betri veð svo þeir gætu tryggt betur sína hagsmuni. Auðvitað varð fjandinn laus um leið og framsalið var leyft en það breytir samt ekki þeirri staðreynd að það stendur skýrum stöfum í stjórnarskránni að kvótinn er eign þjóðarinnar, ekki útgerðarmanna. Útgerðarmenn fá bara úthlutað kvóta í eitt ár, þeir eiga ekki kvótann. Svo áttu þessir 90% aðilar sem ákváðu að kaupa kvótann að vita að þeir væru ekki að kaupa sér eign heldur nýtingarrétt. Þeir áttu að vita að sá möguleiki væri fyrir hendi að þessi nýtingarréttur yrði tekinn af þeim. Þá hefði væntanlega enginn fjárfest svona en við getum endalaust rifist um þetta kerfi en öllum má það vera ljóst að þetta er ekki sanngjarnt. Til að vinda ofan af kerfinu myndi ég telja sanngjarna leið að taka 5% kvóta af viðkomandi útgerð á hverju ári, þannig væri öllu skilað til baka á tuttugu árum og viðkomandi fyrirtæki hefði nægan tíma til að aðlaga sig breyttum aðstæðum.
Ef ég gæti spólað fjörutíu ár aftur í tímann og ákveðið hvernig kvótakerfið á að vera, þá liggur kvótinn hjá ríkinu, sem fær allar tekjur af auðlindinni. Ég myndi treysta mér til að reka góða útgerð ef ég get leigt þorsktonnið á 70 þúsund krónur en í dag skila útgerðirnar bara 25 þúsund krónum til ríkisins og þeir sem leigja frá sér kvótann, borga ekki neitt því það er bara borgað fyrir veitt tonn. Finnst einhverjum virkilega eðlilegt að stóru útgerðirnar skuli geta fjárfest í kvóta í Namibíu t.d. og víðar, fyrir veðsetningu á eign þjóðarinnar? Ekki get ég veðsett hús einhvers annars til að fjármagna mín kaup, af hverju eiga útgerðarmenn þjóðarinnar að geta veðsett þjóðareign? Þeir sem tala fyrir því að þetta sé hagsælla fyrir þjóðina, gleyma algerlega að spá í hvernig hlutirnir væru ef þetta væri ekki svona. Hvað hefði gerst ef kvótinn væri eign þjóðarinnar en ekki fárra útvaldra, hefði útgerð þá bara dáið drottni sínum? Nei, hún hefði að sjálfsögðu lifað en í staðinn fyrir að hagnast um tugi milljarða á ári, hefði hún hagnast minna en meira hefði þá skilað sér til ríkisins. Við megum líka ekki gleyma að þessi stóru útgerðarfyrirtæki eru með puttana í flestum kimum viðskipalífsins, þau eiga orðið í matvælakeðjum, olíufyrirtækjunum og ótal öðru og eru þar í samkeppni við litla aðilann. Viljum við virkilega hafa hlutina svona?“
Uppeldisstöðvar fisksins í hættu
„Ég er eldri en tvæ vetur í þessum bransa, ég var byrjaður í útgerð fimmtán ára gamall, hef fylgt þessu kerfi nánast frá upphafi og þekki það frá öllum hliðum, það er ansi mikil þekking. Ég leyfi mér að fullyrða að smábátaútgerðin mun aldrei ganga á fiskistofnana. Þróunin undanfarin ár er skelfileg að mínu mati, við sjáum hvernig uppsjávartegundirnar eru nánast horfnar, ég segi eingöngu út af breyttri veiðiaðferð. Að hleypa stærri skipum með trolli og flotvörpu í þann veiðiskap gekk að honum dauðum, ég lofa þér að allir gamlir skipstjórar á uppsjávarskipunum taka undir það. Hvað er búið að gerast með humarinn? Af hverju veiðist hann ekki lengur? Því við erum að hleypa togurunum að uppeldisstöðvum fiskistofnanna og þannig eyðileggja þá, samanber humarinn og rækjan. Ef við förum ekki að ranka við okkur verður ekki langur tími þar til bolfisktegundirnar verða líka fyrir barðinu á þessu, að hleypa skipum undir 30 metrum svona nálægt landi er nánast glæpsamlegt að mínu mati, þessi skip eiga að vera sem lengst frá landi, jafnvel allt að 40 mílur. Við verðum að fara hugsa um lífríkið og náttúruna, hvað við erum að gera henni. Við erum með hrygningarstopp en hvað gerist, strax þegar því lýkur eru stóru skipin komin og tæta í gegnum torfurnar og rústa þeim, heldurðu að það sé eitthvað vit í þessu? Skipin stækka og stækka, verða öflugari og öflugari og veiðarfærin þá líka og í mínum huga er ljóst að við göngum á matarforða heimsins,“ sagði Magnús að lokum og ítrekaði að umhverfisvænar veiðar væri framtíðin og því ekki að byrja strax og leyfa meiri strandveiði.
Viðtalið við Magnús er í spilaranum hér að neðan.