Að börn mættu til að mótmæla á hverjum föstudegi
Helga Margrét Guðmundsdóttir svaraði nokkrum spurningum frá Víkurfréttum um áramótin.
Hvað stendur upp úr í einkalífi þínu á árinu?
Bætt heilsa eiginmannsins sem hefur náð sér vel eftir veikindi. Hann greindist með krabbamein í lunga og fór í aðgerð í ágúst 2018 þar sem hægra lungað var að mestu fjarlægt. Um síðustu jól og áramót var hann mjög slappur eftir erfiða lyfjagjöf. Við vorum óviss um framhaldið en á nýju ári fór allt upp á við og hefur hann náð sér vel af þessum veikindum. Hann er kominn í líkamsþjálfun hjá Janusi og byrjaður að vinna. Mér finnst það standa upp úr á árinu. Auk þess útskrifaðist elsta barnabarnið sem stúdent og annað fermdist. Það er þakkarvert að halda heilsu og fá að njóta þess að fylgjast með barnabörnunum vaxa og dafna.
Fagnaðir þú ákveðnum áfanga eða byrjaðir þú á einhverju nýju 2019?
Það var mikill áfangi að ná að setja upp sögusýningu úti í Höfnum um Jamestown-strandið á Ljósanótt. Sagan um strandið (árið 1881) og hvað varð um farm skipsins, sem voru m.a. 100 þúsund viðarplankar, hefur átt hug minn undanfarin ár. Af því tilefni afhentum við í Áhugahópnum sýningargripi til Byggðasafns Reykjanesbæjar. Ég er þakklát að hafa slíkt áhugamál og mun það fylgja mér inn í eftirlaunaárin. Ég náði einnig þeim áfanga að fara í vikuferð um Vestfirði þar sem rætur mínar liggja. Mjög áhugavert var að dvelja daglangt út í Vigur og kynnast betur fyrrum byggð á Snæfjallaströndinni sem er liður í að fræðast meira um ævi Sigvalda Kaldalóns. Svo má ég nú til að nefna að ég var svo heppin að fá að fagna 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með börnum 20. nóvember sl. á Barnaþingi í Hörpu þar sem börnin ræddu við fullorðið fólk um það sem helst brennur á þeim.
Hver fannst þér stóra fréttin á landsvísu?
Að barnamálaráðherra skuli hafa boðað breytingar í þágu barna og að börn hafi mætt á Austurvöll föstudag eftir föstudag til að láta rödd sína heyrast í loftlagsmálum. Eða kannski stóra fréttin sé að eyjan Vigur var seld. Mér finnst það líka stór frétt að fjárfestir skuli eiga stórt landsvæði á Norð-Austurlandi og jafnvel svo að ábúendur viti ekki hver á jörðina sem þeir búa á eða nærliggjandi veiðiár og jarðir.
Hver fannst þér stóra fréttin í nærumhverfi þínu?
Það var náttúrlega óvenjugott sumar. Sunnanlands og vestan telst það í hópi þeirra hlýjustu og sólríkustu. Held að það hafi verið það fimmta hlýjasta í Reykjavík frá upphafi mælinga. Ég var því óvenju mikið í garðinum mínum. Svo er gott að sjá vinnu við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Straumsvík að Kaldárselsvegi. Nokkur alvarleg slys hafa orðið á þessum kafla og gott að bæta umferðaröryggið.
Hvað borðaðir þú um áramótin?
Við erum yfirleitt með fylltan kalkún á gamlársdag. Graflax í forrétt og heimalagaðan ís með Marssósu í eftirrétt. Við höfðum þetta bara hefðbundið núna.
Eru einhverjar áramóta-/nýárshefðir hjá þér?
Hefðirnar felast aðallega í því að fjölskyldan er saman. Ég hef lagt það í vana minn að fara í langan göngutúr á nýársdag og bjóða nýtt ár velkomið. En mér finnst stundum erfitt að kveðja gamla árið og verð oft meyr um miðnætti og þegar ég heyri lagið „Nú árið er liðið“ en á nýársdag er nýtt upphaf og að lokinni göngunni fæ ég mér heitt súkkulaði og jólasmákökur. Byrja svo á nýrri dagbók.
Strengir þú áramótaheit?
Nei, löngu hætt að fara í megrun eða matarkúra. Fer reglulega í sund og heilsurækt. Ég bara tek á móti nýju ári með bjartsýni og von um bættan hag og blóm í haga. Vona að maður haldi heilsu og hafi sína nánustu sem lengst og mest hjá sér. Ég er svo heppin að eiga fjórar yngri systur og gott að rækta vináttuna. Jú, svo er að læra betur á snjallúrið, símann og fjarstýringuna ... hæfir það ekki aldrinum vel?