Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ábreiður frá Valdimar
Á dögunum hlaut hljómsveitin Valdimar menningarverðlaun Reykjanesbæjar, Súluna.Verðlaunin eru veitt þeim sem hafa unnið vel að menningu og listum og var þetta í sautjánda sinn sem Súlan var afhent.
Miðvikudagur 11. desember 2013 kl. 08:50

Ábreiður frá Valdimar

- öðruvísi jólatónleikar frá Súluhöfunum

Tónlistarmenn hafa í nógu að snúast um jólin. Þá eru jú skemmtanir og jólahlaðborð um allar trissur. Þeir félagar úr hljómsveitinni Valdimar, Ásgeir, Högni og Valdi ætla að halda aðeins öðruvísi tónleika núna fyrir jólin en þeir munu setja ýmiss þekkt íslensk dægurlög í nýjan búning. Valdi söngvari segir að strákarnir í Valdimar séu líklega ekki að fara að herja á jólamarkaðinn en þó verður leikið jólalag á tónleikunum sem fara fram á morgun, fimmtudag í Duus í Reykjanesbæ.

Á dagskránni eru m.a. lög eftir: KK, Björk, Bubba Morthens, Emilíönu Torrini, Megas, Hjálma og fleiri. Bæði verða leiknar þekktar perlur sem og minna þekkt lög.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Valdimar Guðmundsson söngvari segist ekki hlusta mikið á jólatónlist nema þá helst í bílnum þegar hann er á ferðinni. Hann viðurkennir þó að nokkur jólalög snerti hjá honum jólataugina. „Christmas Song með Nat King Cole hefur mér alltaf fundist voða fínt. Svo náttúrulega All I Want For Christmas Is You með Mariah Carey og Last Christmas með Wham.“ Valdi segir að jólavertíðin sé strembin hjá tónlistarmönnum og hann sé yfirleitt frekar upptekinn í desember. Varla gefist tími til þess að bregða sér á jólahlaðborð eða á tónleika eins og tíðkast. Valdi sækir þá helst slíkar skemmtanir þegar hann mætir þangað til þess að syngja. Það er ákveðið jólalag sem Valdimar hefur sérstaklega gaman af að syngja en það er Hinsegin jólatré sem Bogomil Font söng með Stórsveit Reykjavíkur hér um árið.

Svínakótilettur í raspi um jólin

Þegar blaðamaður hjó eftir jólahefðum hjá Valda þá var ekki um auðugan garð að gresja. Hann fer þó alltaf í jólamat til föður síns þar sem fremur óvenjulegur matur er borinn á borð. „Það hefur verið hefð hjá minni fjölskyldu að borða svínakótilettur í raspi á aðfanga- eða jóladag. Ég held að pabbi ætli reyndar að fara út fyrir hefðina þetta árið og hafa önd í matinn,“ segir Valdi en kótiletturnar eru framreiddar með brúnuðum kartöflum, rauðkáli, grænum og gulum baunum og svo sultu eins og lög gera ráð fyrir.

Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00. Aðgangseyrir er 1500 krónur.

[email protected]