Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

A17 - Íslensk abstraktmyndlist við upphaf 21. aldar
Föstudagur 9. júní 2017 kl. 12:28

A17 - Íslensk abstraktmyndlist við upphaf 21. aldar

Listasafn Reykjanesbæjar opnar sýninguna A17 sem fjallar um íslenska abstraktmyndlist við upphaf 21.aldar, föstudaginn 9.júní kl. 18.00 í Listasal Duus Safnahúsa. Þar má sjá verk eftir Áslaugu Írisi Katrínu Friðjónsdóttur, Höddu Fjólu Reykdal, Halldór Ragnarsson, Loga Bjarnason, Magnús Helgason, Mörtu Maríu Jónsdóttur og Söru Oskarsson. 
 
Í sýningarskrá segir m.a. : „Abstraktmyndlist hefur átt undir högg að sækja í íslensku myndlistarlífi á undanförnum áratugum og af samtölum við þátttakendur í sýningunni má ráða, að til þess að skapa abstraktmyndlist hafi þeir nánast þurft að kúpla sig út úr íslensku myndlistarlífi, finna sér nýja listaskóla og aðra „senu“. Þá opnaðist fyrir þeim „nýr heimur“, eins og haft er eftir einum þátttakenda í sýningunni. Og hvað var það sem þessi „nýi heimur“ hafði til síns ágætis? Viðmælendur nefna m.a. alþjóðlegt tungumál abstraktlistarinnar, ríkulegt huglægt myndmál, frjálsræði, óútreiknanlega framvindu, tilfinningalega „hleðslu“ og þann möguleika að skapa sér einkalegt svigrúm til tjáningar.“



Allt þetta er fyrir hendi í verkum þeirra sjö listamanna sem getur að líta á sýningunni í Duus Safnahúsum. Þeir vilja láta taka sig alvarlega og ætla ekki að hliðra fyrir öðrum viðhorfum fyrr en í fulla hnefana. Sýningarstjórar eru Aðalsteinn Ingólfsson og Bjarni Sigurbjörnsson og mun Bjarni verða með leiðsögn um sýninguna sunnudaginn 18. Júní  kl. 15.00. Sýningin stendur til  20.ágúst 2017.
 
Listasafn Reykjanesbæjar er staðsett í Duus Safnahúsum og er opið alla daga frá 12.00-17.00.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024