Á þrjá afmælisdaga
Hefur fengið tvö nýru, augasteina, mjaðmakúlur og farið í krabbameinsaðgerð.
Ásta Guðmundsdóttir fékk oft sinadrátt í fætur og hendur eftir sund. Árið 1998 var henni ráðlagt að fá sér kínin. Það er lyf sem á að hindra vöðvakrampa í ganglimum. Í kjölfarið fékk Ásta heiftarleg ofnæmisviðbrögð og eiginmaður hennar, Þórður Kristinn Kristjánsson, hringdi á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og þar var sagt að líklega væri um að ræða nýrnasteina og að hann skyldi gefa Ástu magnýl. Líðanin versnaði og farið var með hana á Landspítalann og komið í hendurnar á Runólfi Pálssyni lækni. Hann sendi Ástu beint í aðgerð, leggur var settur í hálsinn á henni og hún sett í blóðskilunarvél.
„Þeir vissu ekki fyrst hvernig framhaldið yrði því þeir fundu ekki út fyrir nokkrum mánuðum seinna að um var að ræða ofnæmisviðbrögð. Einstaka sinnum getur svona gengið til baka en það gerði það ekki hjá mér í eitt ár,“ segir Ásta. Þegar hún var í blóðskilunarvélinni bauð bróðir hennar, Guðmundur Óskar, henni nýra. „Ég veiktist föstudaginn 13. júní og 15. júní ári seinna fékk ég nýrað úr honum. Hann tók bara skýrt fram að hann ætlaði að gefa nér nýra, punktur og basta! Strax eftir aðgerðina, sem framkvæmd var í Danmörku, var ég sett á mjög sterk höfnunarlyf. Svo var ég sett á stera og varð alveg afmynduð.“ Sterarnir fóru svo illa í Ástu að hún fékk svokallað beinadrep í mjaðmirnar og fékk nýjar mjaðmakúlur 1999 og 2000. Einnig þurfti hún nýja augasteina vegna lyfjanna. „Og svo fékk ég krabbamein í brjóstið 2008, það var fjarlægt og ég fór í geislameðferð í framhaldinu. Það hefur sem betur fer allt gengið mjög vel.“
Allir vildu gefa nýra
Árið 2013 var farið að halla undan virkni nýrans úr bróðurnum og í hálft ár var vitað að það myndi að lokum gefa sig því það gerist mjög hratt undir lokin. „Þá hringdi Dúddi [Þórður] í son okkar, Guðmund, sem ákvað að gefa mér nýra. Reyndar vildu öll börnin mín þrjú gefa mér nýra. Dúddi hefði líka alveg getað það því við erum í sama blóðflokki og vegna þess að við höfum verið svona lengi saman og eignast börn saman þá erum við farin að mynda vessa hvort úr öðru. En vegna þess að hann væri á hjartalyfjum þótti það ekki æskilegt. Einnig yrði betra að fá yngra nýra.“ Aðgerðin var 4. mars í fyrra.
Fer með konuna á partasölu til að fá nýja varahluti
Ásta segist vera komin á betri lyf en áður í þetta tæpa ár síðan hún fékk seinna nýrað. „Lyfin virka mjög vel fyrir nýrað þrátt fyrir slæmar aukaverkanir. Ég er líka hætt að tala um að þetta séu nýru bróður míns og sonar míns. Þetta eru mín nýru,“ segir Ásta og brosir. Húmorinn er sannarlega ekki langt undan og Ásta segir hann skipta miklu máli. „Við fiflumst oft með það hjónin að hann vill ekki skipta um konu, hann fer bara með mig á partasölu til að fá nýja varahluti. Hjónin skellihlæja. Þau segjast vera mjög trúuð og það hafi einnig hjálpað. „Ég vil meina að ég sé umvafin englum,“ segir Ásta, sem hefur kosið að takast á við hvert verkefni lífsins í einu og ýta öllu gömlu frá sér.
Erfitt að vera aðstandandi
„Það er full vinna að ná sér aftur. Ég varð öryrki strax en hætti því 67 ára þegar ég varð eldri borgari,“ segir Ásta, en hún er fædd á lýðveldisárinu 1944. Þau hjónin eru búin að vera saman síðan þau voru 17 og 19 ára og eiga þrjú börn, fimm barnabörn og eina langömmustelpu. „Dúddi er búinn að fara í hjartagáttaaðgerð og það tekur mjög mikið á að vera aðstandandi. Það er miklu erfiðara í raun en að vera sjúklingurinn, því hann er bara í því hluterki að ná sér. Ég mátti varla snúa mér í rúminu þá hélt Dúddi að það væri eitthvað að. Það var alltaf verið að flytja mig eitthvert með sjúkrabíl.“
„Það biður enginn um nýra“
Ásta segist þrátt fyrir allt vera ofboðslega heppin manneskja þrátt fyrir áföll vegna veikinda og að hafa misst föður aðeins fimm ára og móður sína 47 ára úr krabbameini. Henni finnst gott að vita af því hversu margir eru orðnir tilbúnir að gefa líffæri sín eftir sinn dag. „Það biður enginn um nýra. Það er bara hægt að bjóðast til þess að gefa nýra. Þegar ég beið eftir nánýra voru 20 fyrir ofan mig á listanum. Ég hefði aldrei lifað það af að bíða og ég veit um fólk sem lést á meðan það beið eftir nýra. Ég lít þannig á að ég sé eiginlega komin með þrjá afmælisdaga og þykir jafn vænt um þá alla,“ segir Ásta að lokum.
VF/Olga Björt