Á þriðja hundrað ungmenni fögnuðu Fjörchella
Félagsmiðstöðin Fjörheimar, í samstarfi við Vinnuskóla Reykjanesbæjar, býður upp á skapandi smiðjur í sumar þar sem ungmenni bæjarins hafa kost á því að fara í lista- eða viðburðasmiðju í stað hefðbundinnar bæjarvinnu. Listasmiðjan hefur unnið að því að fegra nærumhverfi 88 hússins og um leið læra ýmislegt í tengslum við list en í viðburðasmiðjunni hafa ungmennin fengið frjálsar hendur við viðburðahald fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Ákveðið var að lokum að bjóða upp á skemmtidag fyrir leikjanámskeið, skemmtun fyrir hópa vinnuskólans, uppskeruhátíð skapandi smiðju og viðburð sem kallaður var „Fjörchella“.
Rúmlega 200 ungmenni mættu á viðburðinn sem fór fram úr björtustu vonum, enda langt síðan þau gátu komið jafn mörg saman vegna heimsfaraldursins. Þema „Fjörchella“ var í anda tónlistar- og listahátíðarinnar Coachella sem haldin er í Kaliforníu í Bandaríkjunum ár hvert. Boðið var meðal annars upp á hljóðlátt diskó eða „silent disco“ og hoppukastala í 88 húsinu.
Meðlimir smiðjunnar segja sumarið hafa verið lærdómsríkt og skemmtilegt. Sesselja Ósk, ein af skipuleggjendunum segir það hafa verið gaman að fá að vinna með nýjum krökkum og vera partur af því að gera viðburðinn að veruleika. „Það hefur verið áhugavert að sjá hvað það er margt á bak við viðburði og hvað þurfi að gera og redda,“ bætir María Rán við, annar skipuleggjendanna.
Smiðjurnar hefjast á ný þann 12. júlí en hægt er að fylgjast með verkefnum þeirra á samfélagsmiðlum Fjörheima.