Á þriðja hundrað hafa útskrifast frá MSS
Útskriftarhátíð vorannar hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum fór fram miðvikudaginn 25. maí síðastliðinn. Alls útskrifuðust 49 nemendur af þremur námsleiðum. Þá útskrifuðust tólf úr Skrifstofuskóla 1, tíu úr Grunnmennt og 27 úr Menntastoðum.
Útskriftin var haldin hátíðleg í veislusal á Krossmóa 4 og var þétt setinn bekkurinn. Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðumaður MSS, var með hvatningarræðu til nemenda og Sunna Sigurósk Gísladóttir hélt útskriftarræðu fyrir hönd nemenda. Valdimar Guðmundsson og Örn Eldjárn fluttu tónlistaratriði við athöfnina. Eftir útskriftina þáðu gestir veitingar í húsakynnum MSS. Athöfnin fór fram með hefðbundnum hætti en síðustu ár hefur Covid sett strik í reikninginn. Linda Björk Pálmadóttir, verkefnastýra MSS, segir „eðlilega útskrift“ hafa verið kærkomna og hafa vakið gleði meðal útskriftarnemenda, starfsfólks og gesta athafnarinnar. Þess má geta að á vorönn 2022 hafa 223 nemendur útskrifast frá MSS af 22 námsleiðum.