85 ára gamall flautunemandi
Það er ekki á hverjum degi sem tónlistarnemendur fagna 85 ára afmæli. Það gerðist í vikunni þegar Guðmundur Ákason, flautunemandi í Tónlistarskólanum Sandgerði, fagnaði þeim tímamótum. Í tilefni dagsins færði starfsfólk skólans honum gjafir og blóm.
Víkurfréttir heyrðu í Guðmundi, sem kemur frá Siglufirði, og spurðu hann út í námið og hvenær hann byrjaði að læra.
„Ég fiktaði sem krakki, svona tíu, tólf ára,“ segir Guðmundur. „Það átti sér þá forsögu að ég og systkini mín vorum öll með exem og það var verið að gera tilraunir með að senda okkur ekki í skóla. Mamma sagði að ég hafi verið alveg ómögulegur af því ég mátti ekki fara út svo hún keypti handa mér blokkflautu til að reyna að fá mig til að fá áhuga fyrir því – en ég náði aldrei að spila nema stef úr lögum, ekki í heild sinni.“
Gat ekki gert upp á milli þeirra
Guðmundur starfaði hjá bandaríska varnarliðinu þar sem hann sá um gæðaeftirlit með eldsneyti hersins.
„Á miðjum aldri skildum við, ég og konan mín, og ég kynntist konu hérna í Sandgerði. Ég var með henni í tuttugu ár og hún spilaði á gítar. Við fórum í tónlistarskóla og ég var þar í nokkra mánuði en svo lognaðist það út af enda var ég í fullri vinnu og svona. Þannig að ég var aldrei fljúgandi læs á nótur en gat stafað mig í gegnum þær,“ segir Guðmundur en hann flutti til Hafnarfjarðar eftir að konan lést en flutti svo aftur til Sandgerðis árið 2015 og tók upp þráðinn að nýju í Tónlistarskólanum í Sandgerði skömmu síðar.
„Það var fyrir svona þremur, fjórum árum að tónlistarskólinn hér auglýsti að hann vildi gera músík með eldri nemendum og þá datt mér í hug að ræða við skólann um blokkflautuna – og það varð úr að ég fór að læra.“
Guðmundur segir að hann og flautukennarinn spili saman dúetta en svo fór flautukennarinn í fæðingarorlof. „Svo fór hún í barnseignarfrí og það var enginn flautukennari til að kenna mér á meðan svo það varð að samkomulagi að ég yrði hjá gítarleikarakennaranum. Það var náttúrlega mjög gaman að hafa hann til að spila undir hjá mér og þegar hún kom til baka sagði ég við skólann að ég gæti ekki gert upp á milli þeirra, ég væri ánægður með þau bæði. Þá stakk skólastjórinn upp á því að ég verði hjá þeim báðum – sem ég og er,“ sagði þessi eldhressi flautuleikari að lokum.