700 karlakórsfélagar væntanlegir í október
Karlakór Keflavíkur stendur fyrir Kötlumótinu í ár.
Þorvarður Guðmundsson, formaður Karlakórs Keflavíkur, undirritaði á dögunum ráðningarsamning við Guðmund E. Finnsson sem verkefnisstjóra að Kötlumótinu, sem er söngmót fyrir sunnlenska karlakóra. Guðmundur er vanur viðburðarstjórnandi og hefur m.a. séð um Sandgerðisdaga auk fjölda annarra viðburða víðs vegar um land.
Reiknað er með um 700 söngmönnum úr 18 karlakórum til Reykjanesbæjar 17. október, en Karlakór Keflavíkur stendur fyrir mótinu að þessu sinni. Tónleikahald verður víða um Reykjanesbæ auk þess sem að haldin verður heljarinnar veisla með þátttöku allra karlakóranna um kvöldið. Það er því ljóst að Karlakór Keflavíkur stendur í stórræðum við að auðga menningarlífið á Suðurnesjum með þessari söngveislu.
Kötlumót er samband sunnlenskra karlakóra og félagssvæði Kötlu nær frá Höfn í Hornafirði í austri allt að Stykkishólmi í vestri.