Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

60 skátar af Suðurnesjum á Landsmót skáta
Mánudagur 18. júlí 2005 kl. 16:38

60 skátar af Suðurnesjum á Landsmót skáta

„Það er ótrúleg eftirvænting í krökkunum og fullorðna fólkinu eftir Landsmóti skáta á Úlfljótsvatni,“ sagði Bjarni Páll Tryggvason, félagsforingi en um 60 aðilar frá Reykjanesbæ leggja afstað á mótið á morgun sem stendur yfir til 26. júlí.

„Heiðarbúar koma til með að búa í tjöldum allt mótið og útbúa sitt eigið svæði. Tekið verður þátt í sem flestum dagskráratburðum þar á meðal vatnssprautuslag, Bmx hjólakeppni og sólahringsgöngu í kringum Þingvallavatn, en það eru um 30 km ferð um vatnið,“ sagði Bjarni Páll og bætti við að þeir fullorðnu væru aðeins á svæðinu til að fylgjast með en ungmennin myndu að mestu sjá um sig sjálf. Þá elda þau ofan í sig sjálf.

Heilbrigð víma kemur að innan!
Landsmót skáta er lengsta og ein stærsta og fjölmennasta útisamkoma ungs fólks sem haldin er hér á landi. Íslenska skátahreyfingin hefur frá upphafi lagt grunn að heilbrigðum lífsvenjum barna og ungmenna. Markmið skátahreyfingarinnar er að þroska börn og ungt fólk til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu.

Skátastarf er heilbrigð skemmtun og neysla áfengis eða annarra vímuefna á enga samleið með því. Landsmót skáta eru því að sjálfsögðu vímulaus hátíð. Ungir sem aldnir koma skátar áhyggjulausir saman í náttúrunni, njóta fegurðar hennar og lífsins í samfélagi sem þekkir ekkert kynslóðabil og eina víman sem þar má sjá á fólki er sú sem kemur með gleðinni og lífsfjörinu innan frá.

Mamma og pabbi mæta á Landsmót!
Á mótinu eru starfræktar sérstakar tjaldbúðir þar sem fjölskyldur skátanna og allir sem áhuga hafa á skátastarfi og útilífi geta sett niður tjaldið sitt, tjaldvagn eða fellihýsi og tekið þátt í landsmótsævintýrinu. Fjölbreytt dagskrá er í boði á Landsmóti fyrir alla aldurshópa og því ættu allir að finna sér eitthvað við sitt hæfi. Ekki þarf að tilkynna þátttöku í fjölskyldubúðum. Hægt er að dvelja í fjölskyldubúðum eins lengi og gestir óska þess.

Þátttökugjald í fjölskyldubúðum er kr. 1.600,- stofngjald fyrir hvern einstakling 10 ára og eldri (fæddir 1995 og fyrr) fyrir fyrstu nótt óháð því hversu lengi dvalið er. Síðan er greitt kr. 600 pr. einstakling pr. nótt eftir það, frítt fyrir yngri.

Vertu með!
Bandalag íslenskra skáta hvetur fjölskyldur skátanna, vini og vandamenn til að taka þátt í landsmótinu með þeim og upplifa Undralandið við Úlfljótsvatn.

Á heimasíðu mótsins, www.skatar.is/landsmot, er hægt að fylgjast með mótinu og nálgast frekari upplýsingar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024