400 gestir settu svip á bæinn
Landsmót fór fram í blíðskaparveðri í Grindavík um liðna helgi.
Landsmót unglingadeilda Slysavarnafélagsins Landsbjargar fór líklega framhjá fáum sem áttu leið um Grindavík um liðna helgi, enda iðaði bærinn af lífi. Þátttakendur, sem voru 400, komu frá öllum landshlutum. Mótsgestir voru afar heppnir með veður en árið 1997, þegar svona mót var haldið í Grindavík síðast, þurfti að pakka saman öllum tjöldum og flytja allt fólkið í gistingu í íþróttahúsinu vegna fárviðris og úrkomu. Slysavarnadeildin Þórkatla sá um að næra ungmennin í ár og á kvöldin var t.d. farið með alla gesti í skemmtisiglingu að grindvískum hætti og þyrla Landhelgisgæslunnar tók smá æfingu í höfninni. Víkurfréttir tóku tali Otta Rafn Sigmarsson, mótsstjóra.
„Þetta eru unglingadeildir Slysavarnafélagsins Landsbjargar víðs vegar um landið. Og í þeim eru þátttakendur sem eru á aldrinum 14-18 ára. Svona landsmót eru haldin á tveggja ára fresti og í þetta skipti í Grindavík. Hérna eru tæplega 400 manns - um 300 unglingar og svo umsjónarfólk og annað í kringum þetta.“
Hvað eruð þið að gera?
Við erum búin að skipta öllum krökkunum upp í níu hópa sem skiptast á í að þjálfa sig í bjarsigi, fyrstu hjálp, sigla bátum og svo er á nokkrum stöðum verið að keppa í ýmsum björgunartengdum keppnisgreinum eins og kassahlaupi, pokahlaupi og slíku. Svo erum við með sérstakt þing fyrir unglingana, þar sem þau fá að koma sínum málefnum að til stóru samtakanna, sem eru Slysavarnafélagið Landsbjörg.
Hvað brennur á unglingunum í dag?
Þeir eru helst að ræða umsjónvarmennina eða leiðtogana í starfinu og segja sína skoðun um hvernig þeir eiga að vera. Það eru náttúrulega allir á því að þeir eiga að vera góðar hugmyndir og eru sammála um að langflestir séu góðar fyrirmyndir.
Eitthvað er um erlenda gesti, er það ekki?
Já, við erum með frá þýsku samtökunum THW, 15 einstaklinga, frá því á sunnudag. Þeim finnst alveg einstakt að fá að taka þátt í þessu með okkur. Við höfum gert svolítið vel fyrir þá og passað það að öll rafræn samskipti fari fram á ensku og auðveldi þeim að fylgjast með. Þeir að sjálfsögðu taka þátt í öllu.
Hvað gefur svona landsmót unglingum?
Fyrst og fremst kynnast þau öðrum krökkum og tengjast starfinu betur og mynda tengslanet um allt land. Það eru ekki nema tveir úr hverri deild í 30 manna hópunum sem við skiptum upp í. Þau þurfa að tengjast og kynnast og fara heim með mjög mikið.
Hvernig eru kynjaskiptingar hérna í unglingadeildinni, er ekki meira af stelpum hérna en þegar ofar dregur?
Það er eiginlega þannig. Það er að aukast í björgunarsveitunum að stelpur verða eldri í starfinu. Ég held að það séu hérna fleiri stelpur en strákar.
Og þið hafið verið heppin með veður, þetta er eitthvað annað en 1997 þegar þið helduð mótið hérna síðast?
Já já, þá þurfti að koma öllu liðinu inn í íþróttahús. Það ringdi svo svakalega og það var svo hvasst. Núna hefur bara verið smá gola á okkur, heitt og svo rigndi aðeins í gærkvöldi. Þeir vildu nú meina að það væri bara svona smá hitaskúr til þess að minnka rykið á svæðinu. Veðrið er búið að leika við okkur og við vorum búin að vara við því að ef þau væru að koma á landsmót í Grindavík þá þyrfti góð tjöld og svona. En það hefur ekki þruft, sem betur fer.
Hvernig standa þessir unglingar þjálfunarlega séð? Er þetta alltaf að verða betra og betra?
Þeir standa allavega mjög vel. Það er misjafnt eftir því hvaðan þeir koma. Allir eru góðir í einhverju og óhætt að segja að þau standi sig mjög vel. Þetta er svona gott nesti inn í samfélagið sem þau læra hér.
Eru fjölmennir hópar í unglingadeildunum vítt og breitt um landið?
Já þeir eru mjög víða, allt frá Vestfjörðum og Húsavík, Austufjörðum og alls staðar að. Stærstu hóparnir eru t.d. frá Dalvík og Ísafirði. Fjöldinn í deildum er frá fjórum upp í 40.
Hvernig er unglingastarfið hér á Suðurnesjum?
Það er mjög oflugt, hvergi öflugra. Mjög stórar deildir eru hérna og gengið mjög vel undanfarin ár hérna á Suðurnesjum.
Þetta eru góðar búðir til að byggja upp grunninn sem þarf í alvöru björgunarsveitir?
Já, mjög góðar þótt það sé ekki aðal tilgangurinn. Þá er það svona eitt af hlutverkunum. En tilgangurinn er að efla unglingana í samfélaginu og auka samfélagsvitund.