40 ára afmæli Hljóma í Stapanum
Það var mikið fjör í Stapanum í gærkvöldi á 40 ára afmælissýningu Hljóma frá Keflavík, en um 250 matargestir voru á sýningunni. Hljómar stigu á svið rúmlega tíu og spiluðu fram til miðnættis fyrir matargesti. Hljómar tóku gömul lög í bland við ný lög sem eru á nýju plötunni þeirra. Gestir tóku vel undir, enda lögin þekkt s.s. Þú og ég, hey hey heyrðu mig góða, bláu augun þín og fjölmörg önnur. Salurinn tók virkilega vel undir þegar Hljómar tóku lag sem þeir tileinka Keflavík, Gamli bærinn minn. Stemningin var gríðarlega góð og Hljómar slógu ekkert af í kraftmiklum tónlistarflutningi. Klukkan tólf á miðnætti stigu Árni Sigfússon bæjarstjóri og Haraldur Helgason veitingamaður í Stapa á svið og afhentu Hljómamönnum blóm og að því loknu stjórnaði bæjarstjóri afmælissöng til handa Hljómum.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Árni Sigfússon bæjarstjóri og Haraldur Helgason veitingamaður í Stapa tóku afmælissönginn fyrir Hljóma og tóku gestir vel undir.