30 manns sagt upp hjá Marmeti
Þrjátíu manns var sagt upp hjá fiskvinnslunni Marmeti í Sandgerði í nóvember, en reynt er að endurskipuleggja rekstur fyrirtækisins fyrir áramót þegar uppsagnarfresturinn rennur út. Þetta kemur fram á mbl.is. Bæjarstjóri Sandgerðis segir það vonbrigði að komið hafi til uppsagna en vonast til þess að niðurstaða endurskipulagningarinnar verði jákvæð.
Unnið er að skipulagningu
Fyrirtækið hóf störf í byrjun þess árs og undirritaði fjárfestingarsamning við ríkið vegna fjárfestingar upp á rúmlega 600 milljónir. Búist var við því að vinnslan myndi skapa um 40 störf. Rúnar Sigurvinsson, framkvæmdastjóri Marmetis, segir í samtali við mbl.is að félagið sé nú statt í endurskipulagningu og hluti af því ferli hafi því miður verið uppsagnirnar. Hann segir að verið sé að vinna í þeim málum, en að svo stöddu gat hann ekki gefið upp hvenær endurskipulagningunni yrði lokið eða hvort fólk yrði endurráðið.
Bæjarstjóri bjartsýnn
Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri í Sandgerði, segir að það séu vissulega vonbrigði að komið hafi til uppsagna svona stuttu eftir að flott hátæknivinnsla hafi verið tekin í notkun. Hún segir þetta hafa verið stórt verkefni og er bjartsýn á að jákvæðar fréttir komi á næstunni. Starfsfólk mun vinna út uppsagnarfrestinn, en hann klárast í lok desember. Sigrún segist vonast til þess að komin verði lausn fyrir þann tíma. Í Sandgerði búa um 1600 manns, en atvinnuleysi þar er nú í 5,8%. Það hefur lækkað mikið á síðustu fimm árum, en árið 2008 náði það hámarki þegar það fór upp í 18%.