25 þúsund gestir í Hljómahöll
Hefur hýst árshátíðir, fundi, óvissuferðir, tónleika og sýningar fyrsta árið.
Á árinu 2014 komu um 25 þúsund gestir í Hljómahöll og rúmlega fimm þúsund gestir á Rokksafnið. Þá er ekki meðtalinn allur sá fjöldi sem kom á opnunarhátíðina 5.-6. apríl sem var áætlaður í kringum tvö þúsund manns. Tómas Young, framkvæmdastjóri Hljómahallar segir meirihluta gesta vera Íslendinga, í kringum 90% en fjöldi erlendu gestanna hafi aukist eftir því sem leið á árið. Fyrir utan Rokksafnið og aðrar sýningar er vinsælt að hafa viðburði, árshátíðir, fundir og fleira í Hljómahöll. Þörfin hafi klárlega verið brýn.
„Það tekur auðvitað tíma að byggja þetta upp sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn; eitthvað sem ég þarf að minna mig á annað slagið. Flestir gestir koma í hópum og það eru ýmist fyrirtæki, félagasamtök, klúbbar, vinahópar og fleira sem koma að ógleymdum leikskóla- og grunnskólahópunum sem koma reglulega til okkar hvaðanæva af landinu,“ segir Tómas og bætir við að mest hafi komið honum og í raun öllum á óvart var hversu mikið er sótt í húsið. „Ótrúlega margir vilja koma og sjá safnið og leigja salina og nýta þá þjónustu sem við höfum upp á bjóða. Húsið fékk auðvitað mikla athygli í fjölmiðlum við opnun þess og í ljós kom að þörfin á svona húsi er töluvert meiri en okkur óraði nokkurn tímann fyrir. Ég hef fengið spurningar frá starfsmönnum oftar en einu sinni hvort að ég sé að reyna ganga frá því vegna þess hve mikið hefur verið að gera á tímabilum. Sem er auðvitað mjög jákvætt og það hefur aldrei verið lognmolla í kringum Hljómahöllina. Það er alltaf eitthvað í gangi, hvort sem það eru viðburðir, hópar að koma í heimsókn, útleiga á sölum eða undirbúningur sýningar um Pál Óskar. Það er búið að vera mikið fjör og mikil vinna sem hefur þurft að inna af hendi á þessu fyrsta ári.“
Hissa á fjölda þekkts listafólks frá Íslandi
Samtals sex starfsmenn starfa í Hljómahöll en auk þess segir Tómas ansi langan lista vera af fólki sem sé lausráðið og komi þegar þörf sé á stórum viðburðum. „Að mínu mati vantar í Reykjanesbæ fleiri aðdráttaröfl svo að erlendir ferðamenn sjái hjá sér ástæðu til að heimsækja bæjarfélagið og ég held að Rokksafn Íslands sé stórt skref í áttina til að laða að erlenda gesti.“ Hann telur að ef gerði yrði könnun á því hvers vegna erlendir ferðamenn væru staddir í Reykjanesbæ væri stór hluti þeirra annað hvort nýlentir eða á leiðinni í flug og nýta sér bæjarfélagið sem fyrsta eða síðasta áfangastað ferðar sinnar vegna nálægðarinnar við flugvöllinn.
Íslensk rokk- og poppsaga aðdráttarafl
„Með Rokksafni Íslands er komið aðdráttarafl sem snýst um íslenska rokk- og poppsögu og þeir eru ansi margir erlendir gestirnir sem eru komnir til landsins til að fara á tónlistarhátíðir og margir þeirra hafa heyrt minnst á Björk, Sigur Rós, Of Monsters and Men, Emilíönu Torrini og fleiri tónlistarmenn sem koma héðan. Eins og við höfum fengið að kynnast að þá eru mjög margir erlendir gestir forvitnir um forsöguna og finnst ótrúlegt, eins og svo mörgum reyndar, hversu margar frægar hljómsveitir koma frá þessu litla landi okkar. Liður í því að fá enn fleiri ferðamenn í bæjarfélagið er að fjölga og búa til aðdráttaröfl, þó að þau séu manngerð, hvort sem það eru söfn, tónlistarhátíðir eða annað,“ segir Tómas.
VF/Olga Björt