130 ára afmæli Kálfatjarnarkirkju fagnað
Kirkjudagur Kálfatjarnarkirkju á Vatnsleysuströnd var haldinn hátíðlegur síðasta sunnudag. Við sama tækifæri var haldið upp á 130 ára afmæli Kálfatjarnarkirkju, sem var vígð 1893.
Séra Arnór Bjarki Blomsterberg ,sóknarprestur í Tjarnarprestakalli, og séra Bolli Pétur Bollason, prestur í Tjarnarprestakalli, þjónuðu fyrir altari en Guðmundur Brynjólfsson, djákni, predikaði. Guðmundur er fæddur og uppalinn á Ströndinni en starfar í dag sem djákni á Selfossi. Kór Kálfatjarnarkirkju söng undir stjórn Erlu Rutar Káradóttur, organista.
Eftir guðsþjónustuna að Kálfatjörn bauð sóknarnefnd í afmæliskaffi í Tjarnarsal Stóru-Vogaskóla. Þar söng Sigríður Thorlacius við undirleik Guðmundar Óskars Guðmundssonar.
Það var þétt setinn bekkurinn í Kálfatjarnarkirkju á kirkjudeginum og góður rómur var gerður að predikun Guðmundar djákna af Ströndinni. Reyndar svo góður að prestarnir fengu söfnuðinn til að standa upp og klappa fyrir Guðmundi.
Í Suðurnesjamagasíni vikunnar, sem aðgengilegt verður á vf.is á fimmtudag, verður fjallað um kirkjudaginn og afmæli Kálfatjarnarkirkju. Þar verður rætt við Guðmund Brynjólfsson en í rafrænni útgáfu Víkurfrétta má einnig sjá og heyra predikun hans, sem var mjög hressileg.