Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þriðjudagur 14. ágúst 2001 kl. 09:19

12 listamenn selja verk sín

Félag myndlistamanna í Reykjanesbæ stendur nú fyrir sölusýningu í Svarta Pakkhúsinu. Sýningin er tilraunaverkefni hjá félaginu. Hjördís Árnadóttir, formaður félagsins sagði sýningu til þess gerða að efla menningarlíf í bænum og koma listamönnum í félaginu á framfæri. Þegar blaðamaður leit við á sýninguna annaðist Sigríður Rósinkars yfirsetuna, með pensla í hönd. „Ég vissi það að ef ég tæki málningapenslana með mér myndi vera nóg að gera.“ Það reyndist rétt því um tíu manns höfðu þegar litið við og rétt rúmur hálftími frá opnun.
„Húsið stendur autt yfir sumartímann og ef vel tekst til í þetta skiptið má vel gera ráð fyrir að við gerum þetta framvegis“, segir Hjördís en sýningunni hefur verið vel tekið af almenningi. „Við höfum fundið jákvæða strauma og fólk sýnir þessu mikinn áhuga.“ Listaverkin eru af öllum gerðum og í öllum verðflokkum en 12 listamenn á öllum aldri eiga verk á sýningunni. „Við viljum hvetja bæjarbúa og aðra til að líta við.“ Svarta pakkhúsið er opið alla daga frá kl. 14-17 á meðan sölusýningin stendur yfir.
Þessa dagana eru félagsmenn í óðaönn að undirbúa Ljósanótt 1. september nk. „Við ætlum að taka heilmikinn þátt í Ljósanótt“, segir Hjördís. „Við verðum með sannkallaða karnivalstemningu í portinu við Pakkhúsið þar sem listaverk í eigu félagsins verð boðin upp.“ Samhliða uppboðinu verður samsýning þar sem félagsmönnum gefst kostur á að kynna verk sín en í félaginu eru um 60 listamenn. „Við erum með heilmikla vakningu í gangi hjá okkur og við erum að reyna að efla menningaranda í bænum.“ Í tengslum við Ljósanótt stóð félag myndlistamanna í Reykjanesbæ fyrir þemaverkefni þar sem félagsmenn túlka Ljósanótt á sinn hátt. Tíu listamenn hafa tilkynnt þátttöku en listaverkin verða notuð sem auglýsingar um allan bæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024