11 ára 11.11.11
Hún Ísabella Magnúsdóttir, nemandi í Heiðarskóla fagnar skemmtilegu afmæli í dag. Hún er nefnilega ellefu ára á þessum merka degi, 11. nóvember og það þætti ekki sérstaklega fréttnæmt nema fyrir það að ártalið er 2011 og mánuðurinn er sá ellefti. Sem sagt, 11.11.11.
Ísabella segir að þetta verði án efa eftirminnilegur afmælisdagur. „Ég fæ afmælispakka strax um morguninn en síðan verður afmælisveisla um helgina heima hjá mér,“ sagði hún við Víkurfréttir.
Ísabella er ánægð í skólanum en áhugamálið er dans sem hún stundar í Danskompaníinu. Helga J. Guðmundsdóttir móðir hennar segir að hún geti þó ekki gleymt því að rétt eftir fæðingu á sjúkrahúsinu hafi hún hætt að anda.
„Hjúkrunarkonan tók eftir því þar sem litla daman lá í rúminu klukkustund eftir fæðingu að hún var hætt að anda og orðin blá. Hún var send akút með sjúkrabíl til Reykjavíkur en sem betur fer var það ekki alvarlegt en hefði getað orðið það ef þetta hefði uppgötvast seinna. Nú er hún hraust, mjög dugleg og góð stelpa,“ sagði mamman stolt og undir það tók pabbinn, Magnús Jónsson.
Ísabella á fimm systkin og það má því búast við miklu afmælisfjöri um helgina á heimilinu.Það eru margir sem hafa ákveðið að gera eitthvað skemmtilegt í tilefni dagsins.
Vitað er um nokkur brúðkaup og fleiri skemmtilegar uppákomur.
Ísabella með nokkrum vinkonum sínum í skólanum.
Ísabella með kennaranum sínum, Kristínu G.B. Jónsdóttur.
Afmælisdagurinn, 11.11.11. VF-myndir: Páll Ketilsson