100 ára kosningaafmæli kvenna
Merkum tímamótum gerð góð skil í Grindavík.
Í tilefni þess að 100 ár eru frá því konur fengu kosningarétt á Íslandi var glæsileg dagskrá í Grindavík um helgina. Lovísa H. Larsen formaður frístunda- og menningarnefndar hélt utan um dagskrána og kynnti. Oddný Harðardóttir þingmaður og fyrsta konan til að gegna embætti fjármálaráðherra, ávarpaði fundinn sem fram fór í nýjum og glæsilegum samkomusal í nýja íþróttamannvirkinu við Austurveg. Frá þessi er greint á vefsíðu Grindavíkurbæjar.
Þá var rakin rúmlega 90 ára saga Kvenfélags Grindavíkur en bæði núverandi formaður ásamt fyrrum formönnum fóru yfir söguna í máli og myndum og var það afar fróðlegt en kvenfélagskonur hafa verið hornsteinn menningar í Grindavík í tæpa öld.
Perlur festarinnar eru margvíslegar var yfirskrift ávarps Birnu Þórðardóttur en í hartnær fjóra áratugi hefur hún Birna Þórðardóttir verið eins konar persónugervingur pólitískra mótmæla gegn misrétti og stríðsrekstri. Var fyrirlestur hennar ákaflega skemmtilegur.
Einnig voru veggspjöld á staðnum þar sem fjallað var um kvenréttindabaráttu á Íslandi síðustu öldina.