,,Átakanlegar örlagasögur halda mér við lesturinn“
-Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar
María Rós Skúladóttir, félagsráðgjafi og forstöðumaður Öldrunarþjónustu Reykjanesbæjar er Lesandi vikunnar. Vorið hefur verið mikið bókavor hjá Maríu og hefur hún lesið nokkrar góðar með hækkandi sól. Hún segir það hafa verið kærkomið að gleyma sér yfir góðri sögu í vor þegar námsbækurnar fengu að víkja af náttborðinu.
María Rós lauk nýverið við bókina Kirkja Hafsins eftir Ildefonso Falcones. Sú bók hafði lengi legið á náttborðinu hjá henni en bókina fékk hún að gjöf frá föður sínum fyrir nokkrum árum.
Þar áður las hún bókina To Sostre eftir norska höfundinn Åsne Seierstad. Bókin er sönn frásögn og fjallar um norskar systur sem halda til Sýrlands án vitneskju fjölskyldu sinnar þar sem þær giftast inn í öfgatrú og árangurslausa baráttu föður þeirra við að fá þær aftur heim til Noregs. Åsne skrifaði meðal annars Bóksalinn í Kabúl og Einn af okkur þar sem hún fjallar um fjöldamorðin í Úteyjum og þátt Andres Breidvík. Vinkona Maríu keypti bókina fyrir hana í Danmörku; ,, þurfti ég því að fríska upp á dönskuna við lesturinn sem var ágætis áskorun.“
María segist eiga ótrúlega margar uppáhaldsbækur og eiga margar þeirra það sameiginlegt að vera sögulegar skáldsögur sem fjalla um ástir og átök kvenna. Karítas og Óreiða á striga eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, Auður og Korkusaga eftir Vilborgu Davíðsdóttur, Ljósa eftir Kristínu Steinsdóttur og Reisubók Guðríðar Símonardóttur eftir Steinunni Jóhannesdóttur standa þar upp úr. Málverkið eftir Ólaf Jóhann Ólafsson hefur einnig setið í Maríu og þykir henni hún vera virkilega fallega skrifuð bók. ,,Ætli Kirkja Hafsins sé svo ekki nýja uppáhaldsbókin mín.“
María Rós telur að allir hefðu gott af því að lesa bókina The power of Vulnerability eftir félagsráðgjafann Brene Brown. ,,Bókin gerir okkur að betri manneskjum og heiminn að betri stað. Brene á líka einn af topp tíu vinsælustu fyrirlestrum á ted.com þar sem hún fjallar um efni bókarinnar.“
María segist miklu frekar lesa bækur vegna áhuga á viðfangsefninu fremur en eftir höfundum. Það eru því ótalmargir sem María segist geta nefnt í þessu samhengi, t.d. Vilborgu Davíðsdóttur, Kristínu Marju Baldursdóttur og Brene Brown til að nefna einhverja.
Þær bækur sem María Rós les einna helst eru endurminningar, ævisögur og sögulegar skáldsögur. ,,Átakanlegar örlagasögur höfða til félagsráðgjafans í mér og halda mér við lesturinn.“
Sú bók sem hefur haft hve mest áhrif á Maríu Rós er bókin um Jónatan Livingstone máv eftir Richard Bach en bókina fékk hún í gjöf frá vinkonu sinni fyrir 20 árum. ,,Bókin kennir okkur að vera trú sjálfum okkur og markmiðum okkar en ekki síður að vera óhrædd við að fara okkar eigin leiðir í lífinu“ bætir María við.
Bókin The Rape of Nanking: The forgotten Holocaust of World War II eftir Iris Chang hafði einnig mikil áhrif á Maríu en bókin er söguleg og fjallar um fjöldamorð í kínversku borginni Nanking. Bókina las María þegar hún dvaldi um tíma í Kína og segir hún bókina hafa gefið henni ákveðna innsýn í menningu og sögu landsins.
María Rós segist helst komast í lestrargírinn í fríi á sólarströnd og veit hún fátt betra en að liggja á bekk niðri á strönd með góða bók við hönd. Einnig þykir henni alltaf gott að gleyma sér í bók á flugferðum og svo bara uppi í rúmi í kósý.
Á eyðieyju býst María Rós við að pakka niður bókinni um Jónatan máv. ,,Það væri eflaust líka skynsamlegt að taka með sér dagbókina. Þá gæti maður haldið utan um dagana og skrifað hugsanir sínar niður á blað.“
Sumarið er tíminn og nóg um að vera hjá Maríu Rós en hún ætlar að njóta þess að eyða tímanum með fólkinu sínu, horfa á strákinn sinn spila fótbolta og allt sem því fylgir. Í haust sameinast fjölskyldan svo á Spáni í tilefni af 60 ára afmælinu móður hennar. María Rós verður þá væntanlega á ströndinni með góða bók.