Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Þetta var ekki alveg nógu gott gigg“
Föstudagur 3. nóvember 2023 kl. 06:15

„Þetta var ekki alveg nógu gott gigg“

– segir Sigurður Pétursson sem gekk í raðir Keflavíkur fyrir yfirstandandi körfuknattleikstímabil

Sigurður Pétursson er ungur leikmaður og þykir mikið efni, það var því mikill fengur fyrir Keflvíkinga að hann skildi ganga til liðs við þá fyrir átökin í Subway-deild karla þar sem Keflvíkingum var spáð fimmta sæti en þeir ætla sér stærri hluti í vetur. Víkurfréttum lá forvitni á að vita meira um þennan unga og efnilega körfuboltamann og spurðu hann spjörunum úr.

Elst upp í kringum körfuboltann

Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflvíkinga, er faðir Sigurðar og körfubolti hefur haft töluverð áhrif á uppvöxtinn. „Ég ólst upp í Hveragerði til sjö ára aldurs, pabbi var þá að þjálfa Hamar. Síðan fluttum við í Hafnarfjörðinn og ég hef búið þar síðan.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hefurðu alltaf verið í körfubolta?

„Já, ég hef mætt á tvær fótboltaæfingar – fótbolti er alla vega ekki fyrir mig. Ég hef alltaf verið í körfubolta. Það eru einhvern veginn allir í kringum mig í körfubolta; bróðir minn, pabbi að þjálfa, Kári frændi. Þannig að þetta liggur í genunum.

Ég var í Haukunum í yngri flokkunum en skipti svo yfir í Breiðablik þegar ég var á öðru ári í menntaskóla, kláraði yngri flokkana þar og skipti svo yfir í Keflavík núna.“

Sigurður byrjaði að leika körfubolta með Haukum í Hafnarfirði en kláraði yngri flokkana með Breiðabliki.

Sigurður var að byrja á sínu öðru ári í umhverfis- og byggingaverkfræði í Háskóla Íslands. Hann segist ekki hafa verið ákveðinn með það nám sem hann valdi sér en eftir fyrsta árið fann hann að sér þætti þetta skemmtilegt og ákvað að halda áfram. „Þetta hefur alveg gengið nokkuð vel hingað til. Þetta er misspennandi, sumt er mjög spennandi en annað alveg drepleiðinlegt,“ segir Sigurður um námið. „Mér finnst umhverfisverkfræðin spennandi. Maður er að vinna mikið með allskonar gögn og greina þau, eitthvað sem skiptir í alvöru máli.

Núna erum við í frekar almennri verkfræði en á næsta ári, þriðja ári, förum við í að gera eitthvað sérhæfðara, förum að velja okkar sérhæfingu.“

Vill vinna titla á Íslandi og komast í landsliðið

Spáðir þú ekkert í að fara út í háskóla?

„Nei, ekki í háskóla. Ég stefni frekar á að fara út til Evrópu í atvinnumennsku. Ég fékk einhver tækifæri til þess í sumar en mér leist bara ekki alveg nógu vel á það sem var í boði – þetta var ekki alveg nógu gott gigg.“

Sigurður er einungis 21 árs gamall svo hann hefur nægan tíma til að velta hlutunum fyrir sér og vanda valið. „Kannski vinna einhverja titla hérna á Íslandi og reyna að komast í landsliðið, stökkva síðan eitthvert út,“ segir hann.

Þú átt einhverja leiki með yngri landsliðum Íslands, er það ekki?

„Ég komst aldrei í yngri landsliðin fyrr en U20. Þá komst ég í fyrsta skipti inn og átti eiginlega ekki von á því úr því að hafa ekki verið valinn fyrr. Ég bjóst svo sem ekki við að fá að spila neitt en svo spilaði ég slatta. Síðan var ég valinn í tólf manna úrtak fyrir A-landsliðið í sumar og fór æfingaferð með því. Svo var ég köttaður út úr hópnum þegar hann fór til Tyrklands en ég er kominn á bragðið og byrjaður að banka á dyrnar hjá landsliðinu.“

Ef við tölum um að vinna titla, hvert er markmiðið í vetur?

„Það er náttúrlega að vinna Íslandsmeistaratitilinn og sem flesta titla,“ svarar Sigurður að bragði. „Kannski aðallega Íslandsmeistaratitilinn og kannski líka bikarmeistaratitilinn. Eiga góða tíma og hafa gaman, það er það sem maður kemur til með að líta til baka á.

Þetta er geggjaður hópur hér í Keflavík. Ég fór náttúrlega frá Breiðablik og það voru allir góðir vinir mínir þar en þetta eru alveg geggjaðir gæjar. Á pari skemmtilegir.“

Talandi um bikarinn þá var þetta rosalegur leikur á móti Njarðvík. Það hefur verið sætt að vinna Njarðvíkingana.

„Já, hann var það. Ég hef fengið að heyra það nokkrum sinnum. Sætt að vinna Njarðvík, ég hata Njarðvík núna eftir að ég gekk í Keflavík,“ segir hann og hlær. „Samt, þegar maður var að spila þá fattaði maður ekki hvað þetta var spennandi leikur. Maður var ekkert að pæla í því, var bara að hugsa um að vinna og svo þegar maður horfir til baka þá var þetta fáránlegur leikur. Sá sem skrifaði handritið – þetta var vel gert.“

Keflavík tapaði svo fyrir Stjörnunni í næsta deildarleik eftir að hafa leitt nánast allan tímann. Sat leikurinn gegn Njarðvík ennþá í ykkur?

„Úff, við vorum kannski smá þreyttir en þessi Stjörnuleikur tengdist Njarðvíkurleiknum ekki neitt. Við bara klúðruðum þessu, vorum með þá í tuttugu og átta mínútur og spiluðum mjög illa síðustu tólf mínúturnar. Þetta er bara einn leikur, það má hugsa þetta þannig,“ segir hann að lokum.

Sigurður og Sylvía Sara, kærastan hans, eru búin að vera saman í fjögur ár.